Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 04. maí 2021 09:43
Elvar Geir Magnússon
Danny Guthrie í Fram (Staðfest)
Mynd: Fram
Guthrie hóf atvinnumannaferil sinn með Liverpool .
Guthrie hóf atvinnumannaferil sinn með Liverpool .
Mynd: Getty Images
Fram hefur fengið til sín afskaplega reyndan miðjumann sem á fjölda leikja að baki í ensku úrvalsdeildinni.

Fótbolti.net greindi frá því í gær að Danny Guthrie væri að semja við Framara og nú hefur félagið staðfest það.

Hann mun því leika með Fram í Lengjudeildinni á komandi tímabili en keppni fer af stað á fimmtudag þegar Fram mætir Víkingi Ólafsvík.

Danny, sem er 34 ára, er mjög reyndur miðjumaður sem hefur leikið yfir 100 leiki í ensku úrvalsdeildinni og um 150 leiki í Championship deildinni. Hann hóf atvinnumannaferil sinn með Liverpool en er sennilega þekktastur fyrir tíma sinn hjá Newcastle og Reading.

„Von er á honum til landsins í vikunni þar sem hann fer í sóttkví og hefur svo æfingar með Fram," segir á heimasíðu Fram en þar er rætt við Jón Sveinsson, þjálfara liðsins.

„Þetta mál kom óvænt upp á borð hjá okkur og þótti okkur þetta vera mjög spennandi kostur. Það var erfitt að sleppa þessu tækifæri og við vonumst til að hann með sína reynslu og karakter komi sterkur inn í öflugan hóp. Ég efast ekki um að hann muni ýta mönnum upp á tærnar og vera góð viðbót við gott lið. Framtíðin mun leiða það í ljós," segir Jón.

Danny Guthrie segist sjálfur vera í skýjunum að ganga í raðir Fram og að hann geti ekki beðið eftir því að koma til Íslands og hitta nýja liðsfélaga sína og þjálfara.

„Ég mun vinna að krafti af því að komast í gott form og byrja að keppa og vinna leiki," segir Guthrie.

Ásgrímur Helgi Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Fram, segir að Guthrie komi með mokla reynslu og atvinnumannahugsun inn í hópinn.

„Það er mikill hugur í leikmönnum, starfsliði og stuðningsmönnum og ber að þakka þeim fjölmörgu aðilum innan félagsins sem eru að gera komu Danny að veruleika," segir Ásgrímur.

Guthrie var leystur undan samningi við Blackburn Rovers 2017 og gekk árið eftir í raðir Mitra Kukar í Indónesíu. 2019-2021 hefur hann leikið fyrir Walsall í ensku D-deildinni.
Athugasemdir
banner