De Zerbi á blaði Real Madrid - Ekki hægt að laga samband Ten Hag og Sancho - Chelsea vill fá vinstri bakvörð
   sun 04. júní 2023 12:20
Ívan Guðjón Baldursson
Joselu mun berjast við arftaka Benzema
Mynd: EPA

Það er mikil endurnýjun í gangi innan herbúða Real Madrid þar sem goðsagnakenndir leikmenn félagsins halda áfram að stökkva frá borði.


Karim Benzema mun yfirgefa Madríd í sumar ásamt Marco Asensio og þá gæti Luka Modric einnig verið á leið burt. Þeir myndu fylgja mönnum á borð við Sergio Ramos, Raphael Varane, Gareth Bale, Isco, Marcelo og Casemiro sem hafa allir yfirgefið félagið undanfarin misseri.

Real Madrid er að gera sitt besta til að endurnýja hópinn með ungum og efnilegum leikmönnum en núna vantar félaginu nýjan markaskorara eftir að Benzema staðfesti brottför.

Joselu, fyrrum sóknarmaður Newcastle og Stoke, er á leið til Real Madrid í sumar. Hann átti að koma sem varaskeifa fyrir Benzema en mun þess í stað berjast um framherjastöðuna við nýjan samherja sem Real á enn eftir að kaupa.

Joselu er 33 ára gamall og skoraði 16 mörk fyrir Espanyol er liðið féll úr efstu deild spænska boltans í vor. Hann er að ganga í raðir Real Madrid í annað sinn á ferlinum eftir að hafa verið samningsbundinn félaginu frá 2009 til 2012. Joselu fékk aðeins tvo leiki með aðalliði Real Madrid og skoraði tvö mörk í þeim áður en hann var seldur til Hoffenheim.

Ljóst er að Kylian Mbappé og Harry Kane eru efstir á óskalistanum hjá Real Madrid sem mögulegir arftakar Benzema og gæti Joselu því þurft að berjast við annan hvorn þeirra um sæti í byrjunarliðinu. Mbappe er þó ekki falur fyrr en næsta sumar í fyrsta lagi.

Kai Havertz hjá Chelsea og Victor Osimhen hjá Napoli hafa verið orðaðir við Real Madrid, rétt eins og Roberto Firmino sem gæti komið á frjálsri sölu eftir átta ára dvöl hjá Liverpool.


Athugasemdir