Mainoo að fá nýjan samning - Tekur Guardiola við enska landsliðinu - Eriksen fer til Ajax
   sun 04. nóvember 2018 12:45
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Gummi Magg: Vildi stuða menn og koma einhverju í gang
Guðmundur Magnússo í búningi ÍBV.
Guðmundur Magnússo í búningi ÍBV.
Mynd: ÍBV
Guðmundur skoraði átján mörk í Inkasso-deildinni í sumar.
Guðmundur skoraði átján mörk í Inkasso-deildinni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pedro Hipólito.
Pedro Hipólito.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðmundur Magnússon segir að liðið tímabil hafi verið sitt langbesta á ferlinum. Þessi öflugi sóknarmaður skoraði 18 mörk fyrir Fram í Inkasso-deildinni en þrátt fyrir það hafnaði liðið aðeins í níunda sæti.

Þjálfari Fram, Pedro Hipólito, tók við ÍBV eftir tímabilið og Guðmundur fylgdi honum til Eyja. Í viðtali við útvarpsþátt Fótbolta.net segir Guðmundur að Pedro hafi verið stór ástæða fyrir því að hann gekk í raðir ÍBV.

„Það má eiginlega segja það. Á síðasta undirbúningstímabili var ég með það bak við eyrað að vilja spila í Pepsi-deildinni. Ég átti mitt langbesta tímabil í sumar og vissi að eitthvað gæti komið upp. Svo þegar Pedro fór til ÍBV vissi ég innst að það gæti eitthvað gerst," segir Guðmundur sem raðaði inn mörkum undir stjórn Pedro.

Margir hefðu labbað í burtu
„Pedro spottaði hæfileika mína um leið og hann kom. Þegar hann tók við á síðasta ári fann ég fyrir traustinu. Ég hef skorað mikið undir hans stjórn og síðasta vetur fór ég yfir það með honum hvað ég gæti bætt og það gekk upp. Hann fékk líka inn flinka leikmenn sem hjálpuðu mér að skora svona mikið."

Guðmundur hefur mikla trú á portúgalska þjálfaranum.

„Hann ólst upp í metnaðarfullu umhverfi og spilaði fyrir yngri landslið Portúgals. Hann meiddist ungur og fór þá út í þjálfaraferilinn. Hann er mjög menntaður í þessu og hefur verið undir handleiðslu þjálfara sem kunna sitt."

„Hann vissi kannski ekki mikið hvað hann var að fara út í þegar hann tók við Fram. Þetta er metnaðarfullur maður sem leggur sig mjög mikið fram, sama hvað bjátar á. Það sást kannski á þessum farsa sem gekk á hjá Fram. Hann hélt alltaf sínu striki, Ég held að margir hefðu átt auðvelt með að labba bara í burtu. Ég held að þetta sé mjög spennandi fyrir ÍBV," segir Guðmundur.

Hann segir að Pedro hafi oft fengið ósanngjarnt umtal í því erfiða vinnuumhverfi sem hann starfaði í.

„Það var mjög leiðinlegt því ég veit hvernig hann er í sinni vinnu. Það var ekkert verið að bakka hann upp hjá Fram og hann þurfti alltaf að standa einn í veseni. Það var enginn úr aðalstjórn eða neitt sem stóð við bakið á honum," segir Guðmundur.

Sá tækifæri sem fyrirliði liðsins
Í september fór Guðmundur í viðtal sem vakti mikla athygli en þar tjáði hann sig um óásættanlega umgjörð hjá félaginu.

„Ég er uppalinn Framari og veit hvernig þetta er búið að vera, ég hef alltaf fylgst vel með hjá félaginu. Alltaf þegar eitthvað er í gangi þá hefur enginn komið fram og tjáð sig almennilega. Ég sá ákveðið tækifæri sem fyrirliði liðsins að stíga fram og stuða liðið og koma vonandi einhverju í gang. Það er vonandi að allir fari að standa saman, ef allt er í toppstandi þá nær liðið árangri. Þetta helst í hendur."

Guðmundur er núna í Vestmannaeyjum.

„Fyrir jól verður þetta vika og vika. Ég er núna í Eyjum og verð hér í viku, það er aðallega út af fjölskylduhögum. Ég er kominn með lítið barn og maður þarf að vera stoð og stytta fyrir konuna. Eftir áramót flyt ég einn hingað og þær koma síðan í vor. Ég vil gera þetta almennilega, flytja út í smá einangrað umhverfi og vinna í mínum hlutum," segir Guðmundur.

Hvernig eru væntingar hans til næsta tímabils hjá ÍBV?

„Það hefur aðeins verið að týnast úr hópnum en Pedro er vel tengdur. Ef hann þarf að fá leikmenn inn þá gerir hann það. Ég held að hann þjappi liðinu saman. Undirbúningstímabilið verður erfitt en ef við vinnum vel í vetur þá vona ég að liðið verði laust við að vera í neðri partinum og geti horft upp á við."

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið úr útvarpsþættinum
Athugasemdir
banner
banner
banner