„Ég er svekktur að fá ekki þrjú stig út úr þessum leik. Mér fannst við vera klárlega með stjórnina og ég hugsa að ÍBV hafi viljað að við værum með stjórnina. Þeir eru búnir að reynast okkur erfiðir í Vestmannaeyjum, við erum ekki búnir að skora á þá," sagði Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings, eftir markalaust jafntefli gegn ÍBV í Eyjum í dag.
Lestu um leikinn: ÍBV 0 - 0 Víkingur R.
Leikurinn fór fram á glænýju gervigrasi á Hásteinsvelli en þetta er aðeins annar leikurinn á því þar sem kvennalið ÍBV vígði völlinn gegn Grindavík/Njarðvík í gær.
„Ég ætla allavega að vona það að þetta sé að einhverju leiti vellinum að kenna. Af því að tæknifeilarnir voru miklir, stuttar sendingar og svoleiðis. Menn voru að missa boltann klaufalega frá sér. Að sama skapi þá vissum við þetta fyrirfram og ÍBV er að spila á sama velli þannig þetta á ekki að vera afsökun fyrir okkur. Við áttum bara að nýta stöðurnar okkar og gera betur," sagði Sölvi Geir.
Eyjmenn hafa leikið Víkinga grátt á þessu tímabili þar sem ÍBV sló Víkinga úr leik í Mjólkurbikarnum með sigri í Eyjum.
„Við tökum stigið. ÍBV er erfiður útivöllur og við höfum alltaf átt erfitt með að koma hingað. Við höfum verið að skora á lokamínútum og svoleiðis. ÍBV börðust mjög vel í dag og maður sá að þeir voru að hlaupa fyrir hvorn annan, voru þéttir og að henda sér fyrir allt saman. Það er erfitt að mæta svona liðum og því miður gerðum við ekki betur í dag."
Athugasemdir