fös 05. ágúst 2022 22:27
Brynjar Ingi Erluson
Arteta ánægður með frammistöðuna - „Mjög erfitt að koma hingað"
Mikel Arteta
Mikel Arteta
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mikel Arteta, stjóri Arsenal, var sáttur með frammistöðu sinna mann í 2-0 sigrinum á Crystal Palace í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Arsenal spilaði frábæran fótbolta í kvöld. Liðið var með öll völd á vellinum í fyrri hálfleiknum og náði inn einu marki á 20. mínútu eftir hornspyrnu.

Crystal Palace vann sig aðeins inn í leikinn undir lok fyrri hálfleiks og í byrjun þess síðari en Arsenal tókst að loka leiknum þegar sjö mínútur voru eftir er Bukayo Saka átti fyrirgjöf sem fór af Marc Guehi og í netið.

Arteta var ánægður með frammistöðuna og þá sérstaklega með að liðið hafi haldið hreinu.

„Það er mjög jákvætt að byrja á því að taka þrjú stig út úr þessum leik. Það er mjög erfitt að koma hingað."

„Við áttum nokkur mjög góð augnablik, sérstaklega í fyrri hálfleiknum og við hefðum líklega átt að skora eitt eða tvö mörk til viðbótar þar."

„Ég er mjög ánægður samt því það verða augnablik í leikjum þar sem það verður tekist á og lið munu setja okkur undir pressu og við náðum að komast vel frá því í dag."

„Liðið kom hingað til að spila okkar bolta og við vorum með öll völd á leiknum. Við vorum mikil ógn og vorum líflegir og beittir frá fyrstu mínútu. Við fundum svo fyrir pressunni en náðum að standa þetta af okkur með seiglu."

„Ég hef haft þessa tilfinningu frá því strákarnir byrjuðu undirbúningstímabilið. Þeir eru klárir, virka hungraðir og með hugarfar sem sýnir að þeir vilja vinna."

„Það að halda hreinu í þessari deild er gríðarlega mikilvægt til að vinna fótboltaleiki. Þegar þú heldur hreinu þá átti góðan möguleika á því vinna leiki,"
sagði Arteta.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner