Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 05. október 2022 14:00
Elvar Geir Magnússon
Darwin Nunez: Hefur verið erfitt að aðlagast enska boltanum
Mynd: EPA
Darwin Nunez, sóknarmaður Liverpool, segir að sér hafi fundist erfitt að aðlagast enska boltanum, Nunez var keyptur fyrir 64 milljónir punda frá Benfica en fer hægt af stað.

Hann segir að tungumálaörðugleikar flæki málin og ef ekki væri fyrir tvo aðila í þjálfarateymi Jurgen Klopp þá „hefði hann ekki hugmynd um" hvað Klopp væri að segja.

„Við tölum ekki mikið. Ég kann ekki ensku og hann kann ekki spænsku. Pep Lijnders og Vitor Matos eru túlkarnir þegar Klopp talar við hópinn. Þeir sitja við hlið mér og útskýra hvað ég eigi að gera," segir Nunez í viðtali við TNT Sports í Brasilíu. „Ef þeir væru ekki að útskýra fyrir mér þá færi ég inn á völlinn án þess að hafa hugmynd um hvað ég ætti að gera."

Eftir að hafa afplánað þriggja leikja bann eftir rauða spjaldið gegn Crystal Palace hefur Nunez mistekist að skora í fimm leikjum fyrir Liverpool.

„Sannleikurinn er sá að það hefur verið erfitt að aðlagast en ég trúi því að eftir því sem æfingarnar og leikirnir líða þá mun ég aðlagast smátt og smátt. Það var erfiður tími eftir rauða spjaldið. Ég vissi að ég hefði gert stór mistök og er nú meðvitaður um að þetta megi ekki endurtaka sig. Við gerum öll mistök og ég veit að ég læri af þessu."

„Mikilvægast er að leggja mitt af mörkum fyrir liðið, vera leikmaður sem spilar vel. Þó ég skori ekki verð ég að vera rólegur. Þegar maður byrjar að skora þá fylgja fleiri mörk, ég hef gengið í gegnum þetta áður. En það er óþægilegt sem sóknarmaður að vera ekki að skora mörk."

„Ég er rólegur, ég finn fyrir stuðningi frá stjóranum. Liðsfélagar mínir styðja mig alltaf og ég mun alltaf reyna mitt besta til að hjálpa liðinu að skora mörk, sama þó ég skori ekki sjálfur."
Athugasemdir
banner
banner
banner