Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   þri 06. desember 2022 13:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Bréf frá 21 árs gömlum Ríkharði Jónssyni - Fór fram á að þjálfa ÍA
Ríkharður Jónsson í leik með ÍA gegn Fram árið 1965. Björn Lárusson er Skagamaðurinn sem sést fyrir aftan hann
Ríkharður Jónsson í leik með ÍA gegn Fram árið 1965. Björn Lárusson er Skagamaðurinn sem sést fyrir aftan hann
Mynd: Ljósmyndasafn Akraness
Ríkharður Jónsson lék með Fram og ÍA á sínum ferli, skoraði 139 mörk í 185 leikjum með ÍA. Hann varð sex sinnum Íslandsmeistari á sínum ferli. Ríkharður var formaður ÍA um árabil og var sæmdur æðstu heiðursmerkjum ÍSÍ og KSÍ auk þess sem honum var veitt fálkaorða íslenska lýðveldisins.
Ríkharður Jónsson lék með Fram og ÍA á sínum ferli, skoraði 139 mörk í 185 leikjum með ÍA. Hann varð sex sinnum Íslandsmeistari á sínum ferli. Ríkharður var formaður ÍA um árabil og var sæmdur æðstu heiðursmerkjum ÍSÍ og KSÍ auk þess sem honum var veitt fálkaorða íslenska lýðveldisins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ríkharður lék á sínum ferli 33 landsleiki og skoraði í þeim sautján mörk, þar af fjögur í sigri gegn Svíum árið 1951. Hann var markahæsti landsliðsmaður sögunnar þar til Eiður Smári Guðjohnsen sló markamet hans árið 2007. Árið 2015 var hann vígður inn í heiðurshöll ÍSÍ en tveimur árum síðar kvaddi hann þennan heim.
Ríkharður lék á sínum ferli 33 landsleiki og skoraði í þeim sautján mörk, þar af fjögur í sigri gegn Svíum árið 1951. Hann var markahæsti landsliðsmaður sögunnar þar til Eiður Smári Guðjohnsen sló markamet hans árið 2007. Árið 2015 var hann vígður inn í heiðurshöll ÍSÍ en tveimur árum síðar kvaddi hann þennan heim.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í haust var gefin út bókin Knattspyrnubærinn: 100 ára knattspyrnusaga Akraness. ÍA varð fyrst Íslandsmeistari árið 1951 og var það í fyrsta sinn sem félag utan höfuðborgarsvæðisins landaði titlinum.

Titlarnir komu á færibandi næstu áratugi og fljótlega varð Akranes þekkt sem knattspyrnubærinn. Í bókinni er saga fótboltans á Akranesi rakin í máli og myndum frá árinu 1922.

Í bókinni segir frá sigrum og sorgum knattspyrnunnar. Titlarnir eru margir og sögurnar enn fleiri. Frá úttroðnum hrútspungum sem notaðir voru sem boltar, baráttu Kára og KA, gullöldum, úrslitaleikjum á Laugardalsvelli og í Indónesíu, yfirvofandi gjaldþroti og bæjarsálinni sem sló í takt við fótboltann. Fjöldi Skagamanna koma við sögu og atvik sem ylja Skagamönnum enn um hjartarætur.

Í bókinni stíga fjölmargar kempur af báðum kynjum fram á völlinn og nægir þar að nefna Rikharð Jónsson, Halldór Sigurbjörnsson, Þórð Þórðarson, Svein Teitsson, Teit Þórðarson, Matthías Hallgrímsson, Guðjón Þórðarson, Karl Þórðarson, Sigurð Jónsson, Ólaf Þórðarson, Laufeyju Sigurðardóttur, Vöndu Sigurgeirsdóttur, Rögnu Lóu Stefánsdóttur, Jónínu Víglundsdóttur og Hallberu Guðnýju Gísladóttur.

Hægt er að nálgast bókina í bókabúðum sem og í völdum verslunum Hagkaups og Bónus. Hér að neðan má lesa undirkafla um Ríkharð Jónsson.

Ríkharður Jónsson snýr heim
Óli Örn gerði fyrirspurn um knattsp.kennara og þá sérstakl. um þýskan þjálfara, sem til greina kom. Einnig vildi hann að stjórn Í.A. athugaði möguleika fyrir því hvort hægt væri að fá Richard Jónsson til Akraness.

Allt frá því Ríkharður Jónsson flutti til Reykjavíkur árið 1947 og hóf að spila með Fram höfðu Skagamenn beðið með óþreyju eftir því að endurheimta krafta hans. Í lok árs 1950 vildi Óli Örn Ólafsson kanna hvort Ríkharði þætti ekki tíminn til kominn að snúa aftur heim, hann lagði því fram þá tillögu á stjórnarfundi ÍA sem vitnað er til hér að ofan. Ríkharður var sjálfur að hugsa á þessum nótum og horfði til þess að flytja aftur heim á Akranes. Þegar Óðinn S. Geirdal, formaður ÍA, setti sig í samband við Ríkharð í desember árið 1950 var Ríkharður þá þegar búinn að ákveða að flytja heim.

Haustið 1950 kom hingað til lands knattspyrnuflokkur frá Rínarhéruðunum í Þýskalandi á vegum Fram og Víkings. Í gegnum þau tengsl bauðst Fram að senda út félagsmann til að sækja íþróttaskóla í Koblenz og æfa með þýsku liði og greip Ríkharður það tækifæri. „Þarna í Neuendorf, dálítið sveitalegu úthverfi frá Koblenz, rak knattspyrnusamband Rínarhéraðanna íþróttaskóla, Sportschule Laubach. Á íþróttaskólanum var líf og fjör. Þangað komu 12 til 15 efnilegir strákar í hópum og gistu í skólanum. Þar hafði ég líka herbergi til umráða. Vinir mínir Horst Störse og Jakob Oden stjórnuðu námskeiðum strákanna og ég var með þeim og lærði hvernig alvöru knattspyrnuþjálfun fer fram,“ sagði Ríkharður þegar hann rifjaði upp veruna í íþróttaskólanum. Á meðan Ríkharður var í skólanum æfði hann með knattspyrnuliðinu TuS Neuendorf. „Þetta voru ágætir knattspyrnumenn margir hverjir og höfðu sýnt það á Íslandi sumarið áður. Ég tók þátt í æfingum liðsins og gleypti í mig vinnubrögð þjálfaranna [...] Og þar var þýskur agi á hlutunum og menn tóku rækilega á. Fjarvistir voru ekki leyfðar.“

Þegar Ríkharður hafði verið tæpan mánuð í Þýskalandi settist hann niður og skrifaði bréf til stjórnar ÍA. „Þar sem ég hef ákveðið að flytja til Akraness aftur í vor, hef ég þegar tilkynnt að ég muni spila með Í.A. næsta ár,“ svo hófst bréf Ríkharðs áður en hann útskýrði fyrir stjórninni hvað hann væri að fást við í Þýskalandi. „Aðaláhersla er lögð á „teknik“ og „taktik“ og eru æfingarnar sérstaklega fjölbreyttar og mjög ólíkar því sem við eigum að venjast heima, og aldrei skift upp og leikið á tvö mörk, aðeins það sem getur miðað að því að búa til gott knattspyrnulið [...] Þar sem ég hef notið töluverðrar reynslu og keppni, ásamt kennslu undan farin ár, og núna þá bestu skólakennslu æfinga sem völ er á í knattspyrnu, leyfi ég mér, að fara fram á að, þjálfa hjá Í.A. þegar ég kem heim að vori. Ég ætla að taka það fram, að ég fór á þennan skóla með það fyrir augum, að getað hjálpað til að byggja upp góða knattspyrnumenn, á Akranesi, er heim kæmi. Það sem við þurfum að byggja upp heima er það sama og þeir gera hér, áferðarfallega knattspyrnu, með ellefu mönnum sem geta leikið á öllum stöðum vallarins, og alstaðar jafnvel [...] Sem sagt gera knattspyrnuna á Akranesi það góða, að fólki þyki gaman að sjá hana leikna og vilji stuðla að því að hún eflist sem mest,“ ritaði Ríkharður innblásinn frá Þýskalandi.

Bréfið er fyrir margt merkilegt, og líta má á það sem sem eins konar upphaf gullaldarinnar á Akranesi. Ríkharður var fullur eldmóðs fyrir framtíð knattspyrnunnar á Akranesi og ætlaði sér að gera liðið að því besta á Íslandi. „Það er ekki stærð bæjarins sem ræður. Besta knattspyrnulið landsins getur alveg eins komið frá litlum bæ,“ sagði Óðinn S. Geirdal síðar að Ríkharður hafi ritað til sín frá Þýskalandi. Hafa skal í huga að Ríkharður var aðeins 21 árs gamall þegar hann ritar bréfið til ÍA.

Ríkharður sneri aftur á Akranesi árið 1951 og samdi ÍA við Ríkharð um þjálfarastarfið. Samningurinn fól í sér að ÍA skuldbatt sig til að sjá Ríkharði fyrir húsnæði en auk þjálfunar í meistaraflokki átti hann að þjálfa yngri flokka félagsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner