Real hættir við Guehi - Liverpool horfir til Wolfsburg - Barca getur ekki borgað uppsett verð - Mainoo til Napoli
   fim 06. nóvember 2025 22:36
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Pálmi Rafn hættur - „Tilfinningin að elska fótbolta kom aldrei"
'Ég sé ekki fyrir mér að byrja aftur, en maður veit aldrei'
'Ég sé ekki fyrir mér að byrja aftur, en maður veit aldrei'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég er þakklátur fyrir viðbrögðin og þann stuðning sem ég hef fengið frá félaginu og fólkinu í kringum það'
'Ég er þakklátur fyrir viðbrögðin og þann stuðning sem ég hef fengið frá félaginu og fólkinu í kringum það'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þegar maður leggur mikla orku og tíma í eitthvað án þess að finna raunverulegan tilgang eða gleði, þá fylgir því vanlíðan og neikvæðni'
'Þegar maður leggur mikla orku og tíma í eitthvað án þess að finna raunverulegan tilgang eða gleði, þá fylgir því vanlíðan og neikvæðni'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslandsmeistaskildinum lyft með fótboltafyrirmyndinni, Ingvari Jónssyni.
Íslandsmeistaskildinum lyft með fótboltafyrirmyndinni, Ingvari Jónssyni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sævar Júlíusson er öflugur markmannsþjálfari. - 'Ég fékk strax mjög góða markmannsþjálfun þegar ég byrjaði að æfa og þar átti Sævar Júlíusson allan heiður.'
Sævar Júlíusson er öflugur markmannsþjálfari. - 'Ég fékk strax mjög góða markmannsþjálfun þegar ég byrjaði að æfa og þar átti Sævar Júlíusson allan heiður.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pálmi kom til Víkings frá Wolves fyrir tæpum tveimur árum síðan.
Pálmi kom til Víkings frá Wolves fyrir tæpum tveimur árum síðan.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það að vera með þessum strákum daglega er eitthvað sem ég mun sakna mest'
'Það að vera með þessum strákum daglega er eitthvað sem ég mun sakna mest'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pálmi Rafn lék alls 18 leiki fyrir unglingalandslið Íslands.
Pálmi Rafn lék alls 18 leiki fyrir unglingalandslið Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég hafði samt engan sérstakan áhuga fyrir fótbolta þá, þetta var meira bara gaman og félagslegt í byrjun'
'Ég hafði samt engan sérstakan áhuga fyrir fótbolta þá, þetta var meira bara gaman og félagslegt í byrjun'
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
'Ég hef eignast virkilega góða vini og átt margar frábærar stundir með þessum strákum, sem ég mun alltaf vera þakklátur fyrir'
'Ég hef eignast virkilega góða vini og átt margar frábærar stundir með þessum strákum, sem ég mun alltaf vera þakklátur fyrir'
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
'Ég var alltaf að bíða eftir að eitthvað myndi smella, en það gerðist einfaldlega ekki'
'Ég var alltaf að bíða eftir að eitthvað myndi smella, en það gerðist einfaldlega ekki'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í dag var greint frá því hér á Fótbolti.net að Pálmi Rafn Arinbjörnsson væri kominn í ótímabundið leyfi. Pálmi er 21 árs markvörður, uppalinn í Njarðvík en fór ungur að árum út til Wolves á Englandi. Hann er samningsbundinn Víkingi en ólíklegt er að hann snúi aftur á fótboltavöllinn.

En af hverju er það? Fótbolti.net hafði samband við Pálma og var hann spurður hvernig stæði á því. Hann sagði alla sólarsöguna.

Hvernig kemur það til að þú sért kominn í ótímabundið leyfi, hvað getur þú sagt um stöðuna? Ert þú hættur í fótbolta?

„Þetta er ákvörðun sem hefur verið lengi í mótun hjá mér. Ég hef í raun verið að hugsa þetta í nokkur ár, en síðustu mánuði hef ég farið yfir þetta af alvöru og átt mörg hreinskilin samtöl við fólk sem ég treysti. Að lokum komst ég að þeirri niðurstöðu að það væri rétt fyrir mig að stíga til hliðar núna."

„Ég hef aldrei fundið fyrir þeirri sönnu ástríðu fyrir fótbolta sem maður þarf að hafa til að halda áfram á þessu stigi, og með tímanum fann ég að það var orðið erfitt að leggja svona mikla vinnu í eitthvað sem ég hafði ekki lengur drifkraftinn fyrir. Ég sé ekki fyrir mér að byrja aftur, en maður veit aldrei — mér fannst hins vegar mikilvægt að taka þetta skref á réttan hátt og með skýra hugsun,"
segir Pálmi.

Tengist þetta einhverjum erfiðleikum innan vallar eða utan vallar?

„Þetta er alls ekki ákvörðun sem kom upp úr þurru eða vegna einhvers ákveðins atviks. Ég hef verið að velta þessu fyrir mér í nokkra mánuði og rætt málið ítarlega við fólkið í kringum mig. Þeir sem þekkja mig vel hafa í raun ekki verið hissa — þeir hafa séð hvernig þetta hefur verið að þróast hjá mér síðustu ár. Það var þó aldrei þannig að fólk segði bara „já og amen“, heldur var þetta rætt af hreinskilni og yfirvegun, og niðurstaðan var alltaf sú sama: að það væri rétt fyrir mig að hætta núna."

„Þetta tengist ekki neinum sérstökum erfiðleikum, hvorki innan né utan vallar. Þetta snýst einfaldlega um að ástríðan var ekki til staðar. Þegar maður leggur mikla orku og tíma í eitthvað án þess að finna raunverulegan tilgang eða gleði, þá fylgir því vanlíðan og neikvæðni. Ég er þannig gerður að ég vil gera allt 120%, en í fótboltanum fann ég að ég var orðinn sá sem reyndi að gera sem minnst, og það var merki um að tíminn væri kominn."


Hvernig voru samskiptin við Víking og Kára, var erfitt að koma með þessa beiðni? Varstu sáttur með viðbrögð Víkinga?

„Samskiptin við Sölva og Kára voru mjög góð og fagleg. Þetta var auðvitað ekki einföld ákvörðun að koma með, en bæði Kári og félagið tóku þessu af miklum skilningi og virðingu, sem ég kann virkilega að meta.
Ég hafði átt þessa hugsun lengi en tók endanlega ákvörðunina eftir að ég fann að ég var raunverulega tilbúinn að standa við hana. Ég er þakklátur fyrir viðbrögðin og þann stuðning sem ég hef fengið frá félaginu og fólkinu í kringum það."


Hvernig metur þú tímabilið 2025, varstu sáttur með þitt hlutverk og þína spilamennsku? Þú dettur út úr liðinu eftir leikinn í Bröndby, var það erfitt?

„Ég var heilt yfir sáttur með tímabilið mitt. Ég hafði lengi verið með þá hugsun að kúpla mig frá þessu eftir tímabilið og í raun hlakkaði ég bara til að loka þessum kafla. Ég reyndi mitt besta til að hafa gaman af þessu, þar sem ég hafði í huga að taka ákvörðunina í lok tímabilsins."

„En þegar áhuginn og ástríðan eru ekki til staðar fylgir ákveðin vanlíðan og neikvæðni, sérstaklega þegar maður er að færa fórnir fyrir eitthvað sem maður sér sig ekki lengur í framtíðinni. Ég fann að ég var að leggja mikla orku í eitthvað sem ég hafði ekki hjartað í, og það hafði áhrif á bæði frammistöðu mína og andlega líðan."

„Að detta út úr liði í íþrótt ætti í raun aldrei að vera léttvægt, en það að ég hafi ekki fundið meiri sektarkennd eða pirring yfir því að detta út eftir svona leik segir sitt um stöðuna sem ég var kominn í. Hins vegar lagði ég alltaf 100% í alla leiki sem ég spilaði og undirbúning þeirra og reyndi alltaf að vera eins tilbúinn og mögulegt var fyrir liðið. "

„Ég er hrikalega stoltur af því að hafa staðið í markinu í þessum stórleikjum og í öllum leikjunum sem ég spilaði fyrir Víking. Þetta var hluti af ferlinu, og ég tek mikinn lærdóm með mér úr því. Liðinu gekk mjög vel eftir það, og það var virkilega gaman að sjá og vera partur af því og fá að fagna titlinum með strákunum í lokin."


Hvernig hafa þessi tvö ár í Víkingi verið?

„Þessi tvö ár í Víkingi hafa heilt yfir verið mjög góð. Þetta er geggjaður klúbbur sem ég er stoltur af að hafa spilað fyrir og að hafa unnið Íslandsmeistaratitil með. Ég hef ekkert annað en gott að segja um félagið, teymið og stjórnina, þetta er allt topp eintak af fólki sem veit nákvæmlega hvað það er að gera."

„Það sem ég tek þó mest með mér úr þessum tíma eru samböndin sem ég hef myndað innan leikmannahópsins. Ég hef eignast virkilega góða vini og átt margar frábærar stundir með þessum strákum, sem ég mun alltaf vera þakklátur fyrir."

„Það að vera með þessum strákum daglega er eitthvað sem ég mun sakna mest. Það gerði ákvörðunina vissulega erfiðari, en þegar ég setti góðu hlutina á móti þeim slæmu, þá var niðurstaðan skýr. Ég vildi samt gera þetta á réttan hátt og taka mér tíma til að vera viss, þetta hefur verið hugsun í þrjú ár, en núna fyrst fannst mér ég raunverulega tilbúinn að taka þetta skref."


Hvernig horfir þú til baka, þú byrjar seint í fótbolta er það ekki? Mjög ungur ertu kominn á samning hjá úrvalsdeildarfélagi. Finnst þér skrítið að hafa náð hratt upp stigann hafandi ekki þetta mikla ástríðu?

„Já, það má segja að ég hafi byrjað frekar seint í fótbolta, sérstaklega miðað við flesta í kringum mig. Þetta gerðist eiginlega bara náttúrulega. Ég fór að æfa, fann mig ágætlega í því og áður en ég vissi af var ég 14 ára gamall kominn á reynslu hjá Wolves. Í þeirri ferð fékk ég að heyra að félagið ætlaði að kaupa mig, en það yrði ekki fyrr en ég væri orðinn 16 ára, þar sem ég mátti ekki skrifa undir samning fyrr. Það var auðvitað ótrúleg upplifun á þeim aldri og hvatti mig mikið áfram á þeim tíma."

„Ég fékk strax mjög góða markmannsþjálfun þegar ég byrjaði að æfa og þar átti Sævar Júlíusson allan heiður. Hann sagði strax við mömmu að ég myndi fara í atvinnumennsku og þess vegna byrjaði hann strax að undirbúa mig fyrir það, bæði líkamlega og andlega. Án hans hefði ég líklega ekki getað verið eins lengi úti og ég var. Hann styrkti mig andlega og kenndi mér hvernig á að takast á við erfiðar aðstæður, hluti sem ég tek núna með mér inn í daglegt líf. Hann er mikill karakter og er stór hluti af mínu lífi, ekki bara fótboltalega séð."

„Þrátt fyrir þetta fann ég aldrei hina sönnu ástríðu fyrir fótboltanum. Ég hef alltaf séð þetta þannig að ég hélt áfram meira út frá vana og væntingum, bæði frá sjálfum mér og öðrum, og hélt í vonina að mér myndi finnast þetta gaman einn daginn. Ég hélt líka áfram af því að ég gat nú eitthvað í fótbolta og fann að mér gekk ágætlega, en sú tilfinning að elska þetta kom aldrei. Ég var alltaf að bíða eftir að eitthvað myndi smella, en það gerðist einfaldlega ekki."

„Mér finnst það svolítið sérstakt að hafa náð svona hratt upp stigann án þess að vera með þennan brennandi áhuga. En ég er þannig gerður að þegar ég geri eitthvað, þá reyni ég að gera það sem best og það hefur líklega haldið mér inni í þessu svona lengi. Ég setti mér alltaf háar kröfur og jafnvel þó að ástríðan hafi ekki verið til staðar, þá kom aginn og keppnisskapið mitt í staðinn."


Ertu svekktur með að ástríðan hafi aldrei „bara komið"? Hefur þú upplifað „imposter syndrome" í boltanum - af hverju er ég hérna í kringum þessa gæja?

„Hvort ég sé svekktur yfir því að ástríðan hafi aldrei bara kviknað? Já, að einhverju leyti. Það hefði auðvitað verið gaman að elska þetta eins og margir í kringum mig gera. En á sama tíma hef ég sætt mig við það. Ég er bara öðruvísi gerður og það er í lagi. Ég fann mig aldrei alveg í því að lifa og hrærast í fótbolta alla daga."

„Get alveg sagt að ég hef upplifað imposter syndrome á tímabilum, sérstaklega þegar maður er í kringum leikmenn sem eru ótrúlega drifnir og elska þetta af heilum hug."


Hvenær byrjaðir þú að æfa fótbolta og af hverju?

„Ég byrjaði að æfa fótbolta rétt fyrir N1-mótið 2015. Þá vantaði markmann fyrir C-liðið og ég var beðinn um að redda því. Ég hafði áður verið að sýna einhverja takta í frímínútum, þannig að ég hugsaði með mér að þetta gæti verið skemmtilegt, sérstaklega að fá að fara til Akureyrar með strákunum."

„Á þessum tíma fannst mér ég alltaf vera aðeins út úr því vinir mínir eyddu miklum tíma á æfingum og voru allir í fótbolta, á meðan ég var sá eini sem æfði ekki. Þannig að ég hugsaði að þetta væri sniðugt tækifæri til að vera meira með hópnum. Ég hafði samt engan sérstakan áhuga fyrir fótbolta þá, þetta var meira bara gaman og félagslegt í byrjun."


Horfir þú á fótbolta? Dettur þú inn i samræður um boltann eða kúplar þú þig út?

„Ég hef í raun aldrei horft mikið á fótbolta. Mér hefur almennt bara aldrei fundist sérstaklega skemmtilegt að horfa á hann. Ég tengdi aldrei við það að fylgjast með leikjum eða liðum, og það hefur í raun alltaf verið þannig."

„Það þýðir samt ekki að ég hafi ekki virðingu fyrir íþróttinni eða fólkinu sem lifir og hrærist í henni, þetta er bara ekki eitthvað sem kveikir áhuga hjá mér."

„Auðvitað sleppur maður ekki við fótboltasamræður þegar maður er í þessu umhverfi og á þessu leveli. En eins og margir vita, þá hef ég ekki mikla þolinmæði fyrir of miklu fótboltaspjalli og reyni oftast að kúpla mig út úr svoleiðis samræðum."

„Það er ekkert persónulegt við það, þetta er bara ekki það sem heldur mér gangandi. Ég hef alltaf verið þannig að þegar ég er ekki á æfingu eða í leik, þá vil ég hugsa um eitthvað annað. Það hefur líklega hjálpað mér að halda jafnvægi, sérstaklega síðustu ár þegar áhuginn var ekki jafn sterkur."


Hvað tekur við, hvar liggur áhuginn?

„Ég hef alla tíð haft mikla ástríðu fyrir því að skapa, bæði með ljósmyndum og myndbandsgerð. Draumurinn hefur alltaf verið að geta stundað það á fullu, og núna er það loksins orðin raunveruleiki. Ég byrjaði í febrúar að mynda fasteignir og þetta hefur þróast mjög hratt síðan þá. Nú er ég að þróa þetta í þá átt sem ég vil að þetta fari og sé fyrir mér til framtíðar."

„Ég er mjög forvitinn og elska að taka að mér ný verkefni, þannig að ég sé endalaus tækifæri í kringum þetta brand, Sjónarhorn, sem ég er að byggja upp. Núna er ég loksins í stöðu til að fara „all in“ í þetta, og það hefur þegar opnað dyr að verkefnum sem ég hefði einfaldlega ekki getað tekið að mér ef ég væri enn í boltanum,"
segir Pálmi að lokum.
Athugasemdir
banner