Íslandsmeistarar Víkings vilja frekar sjá fyrir hvar þeir þurfa að styrkja hópinn frekar en að þurfa að bregðast við ef leikmenn skyldu fara annað í vetur. Fótbolti.net ræddi við Kára Árnason, yfirmann fótboltamála hjá Víkingi, um stöðuna á hópnum og hvað Víkingar sæju fyrir sér að gera á markaðnum.
Víkingur missir út Pablo Punyed og Matthías Vilhjálmsson, en fær inn tvo leikmenn sem hafa glímt við meiðsli.
Einn besti leikmaður landsins, Aron Elís Þrándarson, er að snúa til baka eftir krossbandsslit og Sveinn Margeir Hauksson gat ekkert verið með á tímabilinu.
Víkingur missir út Pablo Punyed og Matthías Vilhjálmsson, en fær inn tvo leikmenn sem hafa glímt við meiðsli.
Einn besti leikmaður landsins, Aron Elís Þrándarson, er að snúa til baka eftir krossbandsslit og Sveinn Margeir Hauksson gat ekkert verið með á tímabilinu.
„Það er ekkert sem kallar beint á okkur að við þurfum að gera, en maður vill vera eins mikið próaktífur í þessu og hægt er. Það eru margir sem eru búnir að standa sig vel fyrir lengri tíma og gætu verið á leiðinni út, en það er svo sem aldrei hægt að vita fyrir víst. Oft hefur kannski verið aðeins augljósara hverjir væru að fara út í atvinnumennsku. Það er alveg ljóst að það eru nokkrir kandídatar í að fá tilboð í sig erlendis frá. Við viljum vera próaktífir í okkar málum, en á sama tíma passa að enda ekki með of marga leikmenn í sömu stöðu. Það er vandmeðfarið," segir Kári.
Eins og greint var frá fyrr í dag er Víkingur í markmannsleit þar sem Pálmi Rafn Arinbjörnsson er kominn í ótímabundið leyfi vegna persónulegra ástæðna.
Kári segir að Sveinn Margeir Hauksson komi heim til Íslands í lok mánaðar. Sveinn Margeir samdi við Víking fyrir tæpu ári síðan en spilaði ekkert með liðinu í sumar. Fyrir fram var áætlað að hann gæti einungis tekið þátt í hluta tímabilsins vegna náms í Bandaríkjunum en erfið meiðsli komu í veg fyrir að hann gæti spilað í sumar.
„Hann er á leiðinni heim, kemur í lok mánaðar minnir mig og byrjar að æfa með liðinu. Hann er búinn að vera í erfiðum meiðslum, við þurfum að taka stöðuna þegar hann kemur."
„Hann er nýr leikmaður, og sama í rauninni með Aron, hann spilaði fyrsta leikinn og síðasta leikinn."
Bætt sig mikið
Atli Þór Jónasson var keyptur síðasta vetur frá HK en var ekki í stóru hlutverki hjá Víkingi á tímabilinu. Hvernig metið þið stöðuna á honum?
„Auðvitað bjóst ég við að hann myndi spila aðeins meira. Hann er 'project' hjá okkur, hann átti svolítið langt í land þegar hann kom en hefur verið í gríðarlegu bætingaferli og maður sá það í leiknum á móti Breiðabliki að það var allt annað að sjá hann í þeim leik heldur en í leikjunum á undan."
Einn af þeim sem við erum að skoða
Sigurður Egill Lárusson hefur verið orðaður við heimkomu í Víking en hann verður ekki með Val á næsta tímabili.
„Auðvitað viljum við fá Víkinga í Víking, en ég efast um að við fáum hann. Aldrei að segja aldrei, en við erum með frábæra leikmenn í vinstri bakverðinum og höfum alltaf haft góða vinstri bakverði. Það er ekki endilega staða sem við þurfum á leikmanni að halda."
Hrannar Snær Magnússon, leikmaður Aftureldingar, hefur verið orðaður við flest félög í efstu deild.
„Auðvitað erum við að skoða mikið af leikmönnum, og hann er einn af þeim," segir Kári.
Athugasemdir



