Real hættir við Guehi - Liverpool horfir til Wolfsburg - Barca getur ekki borgað uppsett verð - Mainoo til Napoli
   fim 06. nóvember 2025 10:00
Kári Snorrason
Viðtal
Ólafur Ingi: Hörkulið með suðuramerísk áhrif - Munum þurfa að þjást
Ólafur Ingi Skúlason.
Ólafur Ingi Skúlason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik gerði markalaust jafntefli við KuPS í síðasta leik þeirra í Sambandsdeildinni.
Breiðablik gerði markalaust jafntefli við KuPS í síðasta leik þeirra í Sambandsdeildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Síðasti leikur Breiðabliks var gegn Stjörnunni, þar sem kom í ljós að þeir munu ekki leika í Evrópukeppnum á næstu leiktíð.
Síðasti leikur Breiðabliks var gegn Stjörnunni, þar sem kom í ljós að þeir munu ekki leika í Evrópukeppnum á næstu leiktíð.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Shakhtar er með þrjú stig eftir tvo leiki í Sambandsdeildinni.
Shakhtar er með þrjú stig eftir tvo leiki í Sambandsdeildinni.
Mynd: EPA

Breiðablik mætir úkraínska stórveldinu Shakhtar Donetsk í þriðju umferð Sambandsdeildarinnar í dag. Leikurinn fer fram í Kraká í Póllandi. 

Breiðablik mætti til Póllands seinnipart mánudags og náði tveimur æfingum þar í landi, að sögn Ólafs Inga Skúlasonar þjálfara liðsins eru allir leikmenn klárir í bátana en hann á von á erfiðum leik. Fótbolti.net ræddi við Ólaf í gærdag fyrir leikinn stóra.


Lestu um leikinn: Shaktar Donetsk 0 -  0 Breiðablik

„Eins og flestir fótboltaáhugamenn vita er þetta hörkulið. Hörkufélag sem er með mikla reynslu á háu stigi í Evrópu, var í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í mörg ár og unnið fjölda titla í Úkraínu. Þetta er gríðarlega sterkt lið með suðuramerískum áhrifum. Mikið af Brasilíumönnum í takt við úkraínska leikmenn.“

„Þeir hafa verið með rétt undir 70% með boltann í síðustu tveimur leikjum í Sambandsdeildinnni, gegn Aberdeen og Legia. Það er klárt að það verði meiri líkur en ekki að þeir stjórni meirihluta leiksins. Við þurfum engu að síður að vera hugaðir og hugrakkir, þora að spila og láta boltann ganga. Svo koma auðvitað tímapunktar þar sem við munum þurfa að þjást aðeins. Við þurfum að sinna varnarleiknum vel það er alveg klárt. 

Hvar liggja möguleikarnir fram á við?

„Það eru alltaf skyndisóknarmöguleikar, en svo eru líka svæði sem við getum leitað í sóknarlega. Til þess að komast þangað þurfum við að framkvæma það vel, hreyfingar með og án bolta. Auðvitað hafa öll lið sína styrkleika og veikleika. Ég myndi segja að þeir væru betri sóknarlega heldur en varnarlega. Við þurfum að vera fljótir að láta boltann ganga. Þetta eru mjög snöggir og sterkir leikmenn hjá þeim, þannig tempóið hjá okkur þarf að vera hátt.“  

„Við erum lið sem vill halda í boltann og stýra leikjum. En við þurfum klárlega að aðlaga okkar leikstíl að Shakhtar. Líkurnar eru á því að þeir muni stjórna meirihluta leiksins og það er allt í lagi. Við þurfum að stýra þeim inn í svæði og keyra upp í skyndisóknir, þá er það eitthvað sem við gerum og erum undirbúnir fyrir það.“  

Er liðið með skýrt markmið fyrir leikinn?

„Við viljum fá eitthvað út úr þessum leik, það er klárt. Við viljum góða frammistöðu. Við höfum góðir í síðustu tveimur leikjum, sérstaklega á köflum. En við viljum tengja og ná heilum leik. Seinni hálfleikarnir í báðum þessum leikjum, gegn KuPS og Stjörnunni, hafa verið betri en þeir fyrri. Við horfum í að ná heilsteyptri frammistöðu í 90. mínútur og við vitum að það þarf til til að ná í stig í Evrópu.“ 

Fyrstu tvær vikurnar í starfi

Ólafur tók við liðinu fyrir einungis rúmum tveimur vikum eftir að Halldór Árnason var látinn fara frá Breiðabliki. Hann var spurður hvernig væri að taka við liði sem er í miðri Sambandsdeild.

„Þetta hefur verið gríðarlega skemmtilegt, krefjandi en ótrúlega skemmtilegt. Góður hópur og allir í kringum liðið. Maður sér að það er mikil reynsla innan félagsins eftir síðustu ár í Sambandsdeildinni. Maður nýtur góðs af því að geta sótt í þá þekkingu og reynslu. Það er ótrúlega vel haldið utan um allt í kringum þetta, allt upp á tíu,“  sagði Ólafur að lokum.


Athugasemdir
banner