Real hættir við Guehi - Liverpool horfir til Wolfsburg - Barca getur ekki borgað uppsett verð - Mainoo til Napoli
   fim 06. nóvember 2025 11:10
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Pálmi Rafn í ótímabundið leyfi - Víkingur í markmannsleit
Pálmi er einn efnilegasti markmaður landsins.
Pálmi er einn efnilegasti markmaður landsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pálmi Rafn og Ingvar hafa barist um markmannsstöðuna hjá Víkingi.
Pálmi Rafn og Ingvar hafa barist um markmannsstöðuna hjá Víkingi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur er í markmannsleit þar sem að Pálmi Rafn Arinbjörnsson óskaði eftir því að fara í ótímabundið leyfi frá fótbolta. Þetta segir Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi, við Fótbolta.net.

Pálmi er einn efnilegasti markmaður landsins, fæddur árið 2003 og kom í Víking fyrir tímabilið 2024 eftir að hafa verið hjá enska félaginu Wolves. Hann lék ellefu leiki í deild og bikar með Víkingi tímabilið 2024, þrjá leiki í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar og báða leikina gegn Panathinaikos í umspilinu um sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.

Tímabilið 2025 lék hann átta deildarleiki og þrjá leiki í forkeppni Sambandsdeildarinnar. Víkingur varð Íslandsmeistari í haust. Pálmi á að baki 18 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

„Við þurfum markmann í ljósi þess að Pálmi er kominn í ótímabundið leyfi vegna persónulegra ástæðna. Við þurfum að finna annan markmann," segir Kári.

Er útilokað að Pálmi verði með ykkur á næsta tímabili?

„Maður á aldrei að útiloka neitt, en mér þykir það mjög ólíklegt. Það er ekki nema að hann skipti um skoðun fyrir janúar, sem ég sé ekki að gerist, en aldrei að segja aldrei."

Leitaði hann til ykkar eftir tímabilið og óskaði eftir því að fá að fara í ótímabundið leyfi? Var einhver aðdragandi?

„Það var ekki mikill aðdragandi að þessu, ekki í mín eyru allavega. Hann hafði samband, þetta er það sem hann vill gera og við verðum að virða það. Við stöndum með honum í því."

Kári viðurkennir að ósk Pálma hafi komið á óvart.

„Pálmi er búinn að sýna að hann er gríðarlega efnilegur markmaður, tæknilega sterkur. Það var ekkert verið að gefa honum neina sénsa, hann var að spila af því hann átti það skilið. Þetta kom mér mjög á óvart. Hann er í keppni við besta markmann landsins, það getur oft verið erfitt, en hann stóð sig vel í þeirri keppni," segir Kári.

Pálmi er uppalinn í Njarðvík og hefur verið orðaður við endurkomu í uppeldisfélagið.
Athugasemdir
banner
banner