Arsenal líklegt til að fá Eze - Arsenal hefur enn ekki náð samkomulagi um Gyökeres - Napoli vill Nunez
   mið 09. júlí 2025 15:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Nefnir tvo lykilþætti í góðri spilamennsku Vals
'Það þarf að vera auðmjúkur og viðhalda hungri, það er gríðarlega mikilvægt'
'Það þarf að vera auðmjúkur og viðhalda hungri, það er gríðarlega mikilvægt'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Stemningin þarf að vera í lagi, menn séu alltaf klárir sama hvort hlutverkið sé fimm mínútur eða þær allar'
'Stemningin þarf að vera í lagi, menn séu alltaf klárir sama hvort hlutverkið sé fimm mínútur eða þær allar'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Adam fékk tækifæri í byrjunarliðinu gegn KA og átti mjög góðan leik.
Adam fékk tækifæri í byrjunarliðinu gegn KA og átti mjög góðan leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurður Egill hefur komið vel inn í lið Vals að undanförnu.
Sigurður Egill hefur komið vel inn í lið Vals að undanförnu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Strákarnir, leikmennirnir, eiga sérstaklega mikið hrós skilið'
'Strákarnir, leikmennirnir, eiga sérstaklega mikið hrós skilið'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur er á góðum stað, og eins og Srdjan Tufegdzic, þjálfari liðsins, sagði við Fótbolta.net þá er þetta akkúrat tímasetningin sem þú vilt mæta í leik í Evrópukeppni.

Valur hefur unnið ÍBV (bikar), KR, KA, Stjörnuna (bikar) og Vestra eftir að hafa þar á undan tapað gegn Stjörnunni í deildinni. Liðið er þremur stigum frá toppliði Víkings í Bestu deildinni og komið í bikarúrslit þar sem Valsarar mæta annað hvort Fram eða Vestra í næsta mánuði.

Valur hefur síðustu ár verið með afskaplega góðan leikmannahóp og stefnan sett á titla, en það hefur ekki gengið. Eins og Túfa nefnir í viðtalinu þá er tímabilið einungis hálfnað, og ekkert unnið, en ef áframhald verður á góðri spilamennsku liðsins þá geta Valsarar fagnað í haust.

Þetta er seinni hlutinn í viðtalinu við Túfa fyrir leik morgundagsins gegn Flora Tallinn í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Aðeins hægst á bataferlinu
Birkir Heimisson og Aron Jóhannsson hafa glímt við meiðsli að undanförnu.

„Þetta er að gerast hægar en við áttum von á. Okkar von og fyrsta mat var að þeir gætu komið inn í hópinn í síðustu leikjum; gegn Vestra og Stjörnunni - og vera í hópnum í Evrópuleikjunum. Það er ekki langt í þá, en það hefur aðeins hægt á bataferlinu eins og gerist oft þegar menn eru að ná síðustu prósentunum í að verða klárir. Marius Lundemo, Ögmundur Kristinsson og Hörður Ingi Gunnarsson eru líka meiddir. Birkir Jakob Jónsson er byrjaður að æfa á fullu með okkur og hinir eru klárir."

Uppskera eins og hefur verið sáð
Valsarar hafa verið heitir að undanförnu, náð í góð úrslit, eru þremur stigum frá toppi Bestu deildarinnar, komnir í úrslit Mjólkurbikarsins; hafa unnið fimm sigra í röð.

„Þetta hefur verið á uppleið, ég hef sagt það frá því í vetur að þetta hefur verið á uppleið, en leiðin upp er yfirleitt ekki bein lína. Ég vissi það fyrir fram, það verða alltaf einhverjir kaflar á leiðinni þar sem er farið aðeins niður á við áður en leiðin upp heldur áfram. Þjálfarateymið hefur aldrei misst trú á það sem við erum að gera og sama með leikmenn, þeir eru alltaf búnir að leggja sig fram og með trú á því að við munum uppskera með þessari vinnu sem við höfum lagt í þetta. Það hefur verið að gerast á síðustu vikum."

Mikið hrós á leikmennina en maður vinnur ekkert í júní
„En mótið er bara rétt hálfnað, hellingur eftir. Við vitum að við verðum að halda áfram að bæta okkur eins og við höfum gert hingað til og vonandi með innkomu leikmanna úr meiðslum kemur enn meiri samkeppni og kraftur inn í hópinn að halda áfram að bæta sig."

„Þú vinnur ekki neitt í júní, en að vera í þessari stöðu, komnir alla leið í bikarúrslitaleik, vera í toppbaráttunni í deildinni og að byrja í Evrópukeppni - það er ekkert annað lið í baráttu á öllum vígstöðvum. Það sýnir að við erum búnir að gera eitthvað vel og rétt, og strákarnir, leikmennirnir, eiga sérstaklega mikið hrós skilið. Það er ekkert annað lið búið að vera í jafnmiklu álagi, samt fara menn með mikið hungur inn í hvern einasta leik og markmiðið að bæði vinna leikinn og reyna bæta sig. Það er mikið hrós á leikmennina."


Stemningin þarf að vera í lagi og hlutverkin á hreinu
Túfa talar um samkeppnina, hann hefur fengið framlag frá meira en bara sínu sterkasta liði; menn að banka á dyrnar og ýta við samherjunum. Sem dæmi má nefna Adam Ægi Pálsson, Sigurð Egil Lárusson og Albin Skoglund sem hafa sýnt öfluga frammistöðu eftir að hafa komið inn í liðið.

„Svo að þú fáir þetta þá er tvennt sem þú þarft að hafa í lagi. Stemningin þarf að vera í lagi, menn séu alltaf klárir sama hvort hlutverkið sé fimm mínútur eða þær allar. Hitt er að hlutverk allra leikmannanna þarf að vera á hreinu, það þarf að leggja vinnu í að áherslurnar og leikstíllinn sé á hreinu, svo að þegar leikmaður sem er ekki búinn að vera spila kemur inn þá þekkir hann hvað hann á að gera. Liðið heldur þá frekar stöðugleika þó að einhver dettur út. Markmið mitt sem þjálfari er að vera á þeim stað að það hafi ekki það mikil áhrif á frammistöðu liðsins þó að það detti einhver út. Ég er ánægður að vera á þeim stað á þessum tímapunkti."

„Ég ítreka það samt bæði við sjálfan mig og aðra að það eru bara 50% leikjanna búnir, nóg eftir. Okkar markmið var að ná 35+ leikjum í ár, til þess að ná því þarf að komast alla leið í bikar og spila vel í Evrópu. Við verðum að halda áfram að vera auðmjúkir, halda okkur á jörðinni og leyfa sigrunum ekki að taka okkur frá því sem við höfum verið að gera hingað til. Það þarf að vera auðmjúkur og viðhalda hungri, það er gríðarlega mikilvægt,"
segir Túfa.

Leikurinn annað kvöld hefst klukkan 20:00.
Athugasemdir
banner