Tottenham landar Simons - Man Utd hafnar beiðni Mainoo um að vera lánaður - Villa að kaupa Asensio
banner
   fös 29. ágúst 2025 14:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Dóri Árna: Gaman að sjá þann meistara þarna
Ljóst hvaða liðum Breiðablik mætir í Sambandsdeildinni
Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks.
Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eden Hazard aðstoðaði við að raða niður liðunum.
Eden Hazard aðstoðaði við að raða niður liðunum.
Mynd: EPA
Breiðablik tekur þátt í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar.
Breiðablik tekur þátt í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Breiðabliks og Gent í Sambandsdeildinni 2023.
Úr leik Breiðabliks og Gent í Sambandsdeildinni 2023.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Úr leik Breiðabliks og Zrinjski Mostar í forkeppni Evrópudeildarinnar.
Úr leik Breiðabliks og Zrinjski Mostar í forkeppni Evrópudeildarinnar.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Breiðablik er í annað sinn komið á þetta stig keppninnar.
Breiðablik er í annað sinn komið á þetta stig keppninnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér líst mjög vel á þetta. Það er spennandi að vera komnir aftur á þennan stað, að spila í Sambandsdeildinni," sagði Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, þegar hann ræddi við Fótbolta.net frá flugvellinum í Amsterdam í dag.

Breiðablik er að fara að fljúga heim til Íslands eftir að hafa unnið einvígi sitt við Virtus frá San Marínó í gær. Með sigri í einvíginu komst Breiðablik í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar en þetta er þriðja árið í röð þar sem íslenskt lið kemst á þennan stað. Breiðablik hefur nú afrekað þetta tvisvar og Víkingur einu sinni.

Í dag var dregið hverjir andstæðingar Breiðabliks yrðu í deildarkeppninni og þar komu upp úr hattinum Shamrock Rovers frá Írlandi, Shakhtar Donetsk frá Úkraínu, KuPS frá Finnlandi, Strasbourg frá Frakklandi, Samsunspor frá Tyrklandi og Lausanne-Sport frá Sviss.

„Mér finnst þetta mjög verðugir andstæðingar og ég held að við getum vel við unað. Við erum spenntir að mæta þessum góðu liðum," segir Dóri.

Náði að fylgjast með drættinum
Breiðabliksliðið flaug í morgun frá Ítalíu til Hollands, en liðið var nýlent þegar í ljós kom hverjir andstæðingarnir yrðu.

„Við vorum að lenda og fara í gegnum vopna- og öryggisleitina þegar drátturinn var. Ég steig til hliðar, settist með tölvuna og fylgdist með þessu. Ég náði því," segir Dóri.

Eden Hazard, einn besti leikmaður í sögu Chelsea, sá um ýta á takkana í drættinum. Dóri er mikill Chelsea maður hafði gaman að því að sjá Hazard þarna.

„Sem Chelsea maður og mikill Eden Hazard maður þá var gaman að sjá þann meistara þarna. Þetta var heilmikil athöfn. Ég missti af allri sýningunni á undan en það var gaman að sjá minn mann Hazard þarna. Það kryddaði þetta aðeins," segir Dóri.

Markmiðið að gera betur en 2023
Eins og áður segir er Breiðablik í annað sinn komið á þetta stig í Sambandsdeildinni. Síðast spilaði liðið nokkra góða leiki en náði ekki í stig. Markmiðið núna er að gera betur en þá.

„Við nálgumst þessi verkefni á aðeins mismunandi hátt. Þetta eru virkilega sterk lið í útileikjunum og líka mjög góð lið sem við fáum heima. Við horfum í það yfir vetrartímann á Íslandi að við getum sveiflað augnablikinu yfir til okkar. Við getum gefið öllum þessum liðum hörkuleik. Að sjálfsögðu er okkar markmið að gera betur en síðast, árið 2023, þar sem við spiluðum góða leiki gegn sterkum liðum en náðum ekki í stig. Það er eitthvað sem við viljum bæta núna," segir Dóri.

Fyrirfram eru Shakhtar Donetsk og Strasbourg líklega sterkustu andstæðingarnir.

„Það er gaman að mæta Shakhtar, virkilega gott lið. Þeir spila auðvitað ekki á sínum heimavelli og það verður öðruvísi andrúmsloft á svona hlutlausum velli. Strasbourg er mjög sterkt lið sem er að koma upp núna. Styrkleiki liðanna er auðvitað metinn út frá því sem þau hafa gert í Evrópu síðustu fimm ár en ekki hvar þau standa akkúrat í dag. Strasbourg er metið frekar neðarlega en þeir eru mjög sterkir og hafa orðið sterkari eftir að eigendur Chelsea keyptu félagið. Það verður hrikalega gaman að mæta þeim á þeirra flotta heimavelli. Þeir eru með stór nöfn í sínu liði og það verður spennandi leikur. Það verður mjög skemmtilegt líka að mæta Loga og Samsunspor."

Vorum alltaf með stjórn
Breiðablik þurfti að vinna Virtus frá San Marínó í umspilinu til að komast á þetta stig. Blikar unnu einvígið samanlagt 5-2. Hvernig líður þér með þetta einvígi?

„Mér líður bara vel með það. Við vinnum 5-2 samanlagt og að mínu mati var þetta aldrei tæpt. Við vorum alltaf með stjórn á þessu. Við vorum alltaf með þetta í okkar höndum og þetta var held ég bara fagmannlega klárað," segir Dóri.

„Þetta var andstæðingur sem kom á óvart í keppninni en þeir komust þangað með því að slá út sterkt lið. Við þurftum að taka þá alvarlega. Við fundum að við erum í miklu, miklu betra formi en þeir. Við náðum að pressa þá vel og vorum með mikla stjórn. Í fullkomnum heimi hefðum við gert fleiri mörk á heimavelli þar sem við vissum hvernig síðasti leikur þeirra í San Marínó fór. Það er auðvitað pínu trikkí að fara út með eins marks forystu en við gerðum þetta fagmannlega í gær. Þetta var ekki besti Evrópuleikur sem við höfum spilað en var bara fínt. Við fórum þarna út og kláruðum verkefnið; það sem við ætluðum okkur að gera."

Umræðan í fótboltasamfélaginu var á þann veg að það hefði verið skandall ef Breiðablik hefði ekki klárað þetta.

„Skandall er orð sem á við um eitthvað allt annað en frammistöðu í íþróttaleikjum. Það hefði verið mjög svekkjandi og við hefðum verið mjög vonsviknir að fara ekki áfram úr þessu einvígi. Það er klárt. Það hefði verið þannig sama hver andstæðingurinn hefði verið á þessu stigi keppninnar. Ég veit ekki út frá hvaða forsendum menn eru að meta Virtus liðið annað en hvað þeir hafa gert í Evrópu í sumar. Þeir spiluðu tvo mjög jafna leiki við Zrinjski Mostar. Þetta var andstæðingur sem við áttum að vinna, ætluðum að vinna og unnum. Þar við situr og við erum ánægðir með það," sagði Dóri.

Fókus á deildina næstu vikur
Núna fer einbeitingin á Bestu deildina hjá Blikum en þeir eru í fjórða sæti þar á þessum tímapunkti. Blikar stefna auðvitað ofar en það en fjórða sætið gefur ekki þáttökurétt í Evrópukeppni á þessu tímabili nema Vestri endi á meðal efstu þriggja sem er ansi ólíklegt.

„Núna þurfum við að byrja á því að koma okkur heim og hvíla okkur í hálfan dag. Svo förum við í Víkina," segir Dóri.

„Við erum klárir í það. Við þurfum að leggja Evrópuverkefnið til hliðar í nokkrar vikur núna. Það er allur fókus á deildina. Það er frábært að fara í Víkina því ef menn ná ekki að vera klárir þar, þá verður það sennilega bara hvergi. Það er mjög gott að fá þennan leik núna strax."

Víkingur og Breiðablik eigast við á sunnudaginn en fyrsti leikur Blika í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar verður í byrjun október.
Athugasemdir
banner