
„Hrikaleg vonbrigði að koma hingað og tapa þessum leik," sagði Haraldur Freyr Guðmundsson þjálfari Keflavíkur eftir 4-2 tap gegn ÍR í kvöld.
Lestu um leikinn: ÍR 4 - 2 Keflavík
„Við ætluðum að koma hingað og selja okkur dýrt, og vera með baráttu. Við vorum bara undir í því, því miður. Sérstaklega í fyrri háflleik, við byrjum leikinn hræðilega. Við erum búnir að fá á okkur sex eða sjö horn eftir tíu mínútur. Þeir spila mjög 'direct', voru að vinna fyrsta boltann og annan boltann. Blautur og erfiður völlur, og dómarinn leyfði mikið í báðar áttir. Eins og ég segi, við vorum bara undir," sagði Haraldur.
ÍR-ingar léku á alls oddi í fyrri hálfleik og Keflvíkingar áttu í miklum erfiðleikum með að stöðva þá.
„Það var mikið um löng innköst og hornspyrnur. Það var svo sem ekkert allt galopið. Við náðum að verjast ágætlega í byrjun, í þessum hornspyrnum. Við vorum bara litlir í okkur á köflum," sagði Haraldur.
Þetta tap þýðir að Keflavík þarf að treysta á úrslit hjá öðrum liðum til þess að eiga möguleika á að komast í efstu fimm sætin sem gefa umspil.
„Þó að maður fái nú bara þrjú stig fyrir sigur, þá var þetta klárlega sex stiga leikur, og þeir komnir sex stigum á undan okkur. Ég veit svo sem ekki hver staðan er í Fylkir-HK. Þetta er ekki lengur í okkar höndum en við þurfum að halda áfram, eigum Njarðvík næst heima," sagði Haraldur.