Ósk franska sóknarmannsins Randal Kolo Muani er loksins að rætast en hann er á leið aftur til Juventus frá Paris Saint-Germain á láni. Í þetta sinn verður kaupskylda í lánssamningnum.
Kolo Muani eyddi seinni hluta síðasta tímabils á láni hjá Juventus og var mikil ánægja með framlag hans en hann skoraði 10 mörk í 22 leikjum ásamt því að leggja upp þrjú.
Eftir tímabilið hélt hann aftur til PSG. Það var útlit fyrir að ekkert yrði úr skiptunum og allt mjög hljóðlátt í kringum hans framtíð, en nú er allt að þokast í rétta átt.
Juventus og PSG hafa að stærstum hluta náð samkomulagi, en Kolo Muani mun fara á láni út tímabilið með kaupskyldu.
Félögin hafa náð saman um 60 milljóna evra kaupverð en nú er verið að ræða hvernig best sé að dreifa greiðslunum og hvað Kolo Muni muni þurfa að gera til þess að virkja kaupskylduna.
Kolo Muani var einnig orðaður við félög í ensku úrvalsdeildinni, en Juventus átti hug hans allan og nánast öruggt að hann verði áfram í Seríu A á næstu leiktíð.
Athugasemdir