Aston Villa reynir við Cunha - Barcelona getur ekki fengið Rashford - Duran til Sádi-Arabíu?
   mán 09. desember 2024 21:59
Ívan Guðjón Baldursson
England: Bowen skoraði og lagði upp í sigri gegn Wolves
Mynd: West Ham
Mynd: Getty Images
West Ham 2 - 1 Wolves
1-0 Tomas Soucek ('54)
1-1 Matt Doherty ('69)
2-1 Jarrod Bowen ('72)

West Ham og Wolves áttust við í eina leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni og var mikið undir fyrir bæði lið eftir slakt gengi á upphafi tímabils.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn þar sem bæði lið fengu fín færi en tókst ekki að skora og því var staðan markalaus í leikhlé.

Tomas Soucek kom Hömrunum yfir með furðulegum skalla eftir hornspyrnu þar sem óljóst er hvort hann hafi verið að reyna sendingu eða marktilraun, en inn fór boltinn.

Matt Doherty jafnaði fyrir Úlfana stundarfjórðungi síðar með góðu marki eftir flotta fyrirgjöf frá Rayyan Aït-Nouri.

Það leið þó ekki á löngu þar til heimamenn tóku forystuna á ný. Í þetta sinn skoraði Bowen eftir laglegt einstaklingsframtak innan vítateigs.

Úlfarnir voru hættulegri aðilinn í síðari hálfleik en tókst ekki að nýta færin sín. Hamrarnir fengu einnig gott færi til að skora þriðja markið sitt sem fór forgörðum, en lokatölur urðu 2-1.

West Ham er því komið með 18 stig eftir 15 umferðir, einu stigi á eftir Manchester United og tveimur stigum frá Tottenham og Newcastle sem hafa ekki verið að standast væntingar. Starfi Julen Lopetegui hefur líklega verið bjargað í bili en framundan eru erfiðir leikir gegn Bournemouth og Brighton.

Lopetegui gæti því séð fram á annan úrslitaleik upp á starfið sitt þegar West Ham heimsækir Southampton annan í jólum.

Starf Gary O'Neil hjá Wolves er í bráðri hættu en liðið situr í fallsæti með 9 stig, fjórum stigum frá öruggu sæti í deildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner