O'Neil tók við Úlfunum fyrir einu og hálfu ári síðan. Þeir voru ekki í fallhættu á síðustu leiktíð en hafa byrjað illa í haust.
Gary O'Neil svaraði spurningum eftir 2-1 tap Wolves gegn West Ham United er liðin mættust í eina leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni. Hann var langt frá því að vera ánægður með dómgæsluna og útskýrði hvers vegna að leikslokum.
Úlfarnir sitja eftir í fallsæti, með 9 stig eftir 15 umferðir, og er starf O'Neil talið vera í hættu vegna slaks gengis.
„Við spiluðum fínan leik í kvöld. Við fengum betri færi en það var mjög mikið af ákvörðunum sem féllu gegn okkur í þessum mikilvæga slag. Strákarnir gerðu sitt besta og ég er stoltur af þeim, þeir börðust í 90 mínútur og gerðu West Ham erfitt fyrir. Á öðrum degi hefðum við unnið þennan leik," sagði O'Neil við fréttamenn.
„Það eru minnst fjögur mikilvæg atriði sem féllu gegn okkur. Í fyrsta lagi þá áttu þeir aldrei að fá hornspyrnuna sem þeir skoruðu úr í fyrri hálfleik, því boltinn fór af (Aaron) Wan-Bissaka og svo útaf. Í öðru markinu er augljóst brot í aðdragandanum þar sem (Santiago) Bueno dettur niður í vítateignum. Þetta er ótrúlega augljóst brot og ég er verulega hissa að markið hafi fengið að standa.
„Hin atvikin eru vítaspyrnurnar sem við áttum að fá þegar Emerson Palmieri, sem var á gulu spjaldi, ýtti augljóslega í bakið á (Goncalo) Guedes og svo þegar Jean-Ricner Bellegarde var felldur innan vítateigs. Það var lítil snerting en hún var nógu mikil til að taka leikmanninn úr jafnvægi.
„Við erum svekktir að þessar ákvarðanir hafi ekki fallið með okkur, en við þurfum að hugsa um aðra hluti."
John Brooks dæmdi leikinn með Simon Bennett og Dan Robathan á hliðarlínunum. Andy Madley var í VAR-herberginu með Steve Meredith sér til aðstoðar.
Athugasemdir