„Mér líður mjög vel. Þetta var frábær liðssigur í kvöld. Allir spiluðu mjög vel og þetta var afar verðskuldaður sigur fannst mér.“ sagði Leah Maryann Pais sem skoraði öll fjögur mörk Þróttara í kvöld í 4-1 sigri á Aftureldingu í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.
Lestu um leikinn: Afturelding 1 - 4 Þróttur R.
Þróttaraliðið kom mjög sterkt út í seinni hálfleik og voru mun betri þá en þær voru í þeim fyrri.
„Við vissum í hálfleik að við vorum ekki búnar að vera góðar. Við þurftum að ná í seinna markið fljótlega í seinni hálfleik. Við vissum að það yrði stórt fyrir leikinn og myndi breyta honum. Eftir að við skoruðum annað markið héldum við bara áfram og gerðum hlutina einfalt.“
Það er ekki á hverjum degi sem leikmaður skorar fjögur mörk í 8-liða úrslitum bikarsins en Leah var spurð hvort þetta væri hennar besti leikur á ferlinum.
„Ég hef reyndar skorað sex mörk í leik áður. En á hærra getustigi er þetta með mínum betri leikjum á ferlinum.“
Þróttur hefur ekki átt gott mót í deildinni í ár og eru á botninum í deildinni en unnu fyrsta deildarleikinn sinn í seinasta leik gegn Stólunum. Leah fór yfir það hvað Þróttaraliðið þarf að gera til að byrja að vinna leiki í deildinni.
„Við þurfum að gera hlutina einfalda. Við erum með alla innviði og allar stelpurnar í það. Allir eru mjög mikilvægir í liðinu. Þegar við byrjum að gera okkar hluti einfalda og hreyfa boltann meira fram á við koma sigrarnir.“ sagði Leah að lokum.
Viðtalið við Leuh má finna í heild sinni í spilaranum hér að ofan.