fim 11. ágúst 2022 14:04
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þær íslensku stálu símanum af Evrópumeistaranum
Kvenaboltinn
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Undirbúningstímabilið fyrir úrvalsdeild kvenna í Þýskalandi er farið á fulla ferð.

Það eru margir Íslendingar í deildinni og verður gaman að sjá hvernig hún mun spilast.

Hjá stórveldinu Bayern München leika þrjár íslenskar landsliðskonur; Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir.

Það er greinilega létt yfir á æfingasvæðinu hjá Bayern í sumar ef marka má samfélagsmiðla.

Núna er í dreifingu skemmtileg mynd á samfélagsmiðlum þar sem má sjá Cecilíu og Karólínu ásamt þýsku landsliðskonunni Linu Magull. Myndina birta þær á aðgangi Georgiu Stanway, sem varð Evrópumeistari með Englandi í sumar. Þær hafa einhvern veginn komist í símann hennar.

Við myndina skrifa þær: „Gorgeous, gorgeous girls," sem hægt er að þýða sem: „flottar, flottar stelpur."

Stanway, sem spilaði alla leikina með Englandi á EM, gekk í raðir Bayern frá Manchester City í sumar.

Þýska úrvalsdeildin hefst eftir um mánuð, en þetta kemur til með að vera barátta á milli Íslendingaliðanna - Bayern München og Wolfsburg - líkt og á síðasta ári.


Athugasemdir
banner