„Rosalega góð tilfinning. Gaman að fylgjast með strákunum koma inn í þetta verkefni, þeir höfðu trú á þessu, ætluðu sér að ná í þessi þrjú stig og ég var virkilega ánægður með það því umtalið um okkur í sumar hefur náttúrulega ekki verið gott. Við ætlum okkur að vera áfram í efstu deild á næsta ári og þetta var bara eitt skref í átt að því." voru fyrstu viðbrögð Jóhannesar Karls Guðjónssonar þjálfara ÍA.
Lestu um leikinn: ÍA 3 - 1 Leiknir R.
Landsleikjahléið fór vel í Skagamenn en liðið sýndi ekki á vellinum í dag að liðið væri í neðsta sæti deildarinnar.
„Ég var spurður af þessu fyrir leik líka. Við fórum bara í það að reyna að vinna bara í öllum þáttum leiksins sem við getum bætt okkur í. Það er ekki eitthvað eitt sem hefur verið eitthvað lélegt hjá okkur. Við höfum oft verið klaufar og við getum varist betur. Við sýndum það hérna í dag að við getum varist vel og þurfum líka að leggja áherslu á það, við þurfum að geta bætt pressuna okkar og þurfum að vera oft þéttari í lágpressunni. Það eru atriði sem við þurfum að halda áfram að þróa."
Þessi sigur gefur ÍA risa líflínu en liðið er núna tveimur stigum frá öruggu sæti og framundan eru tveir risa leikir á móti Fylki og Keflavík.
„Við höfum talað um það marg oft að deildin var bara sett svona upp að þessir þrír leikir eru síðustu þrír leikirnir okkar. Þessir spennandi leikir sem eru framundan eru rosalega mikilvægir. Við eigum bikarinn í millitíðinni fáum svo Fylki í heimsókn og eins og í dag þá ætlum við okkur að vera grimmir og ákafir og sýna fólkinu okkar sem koma á völlinn að við erum með vilja og hjarta til að berjast fram á síðustu mínútu fyrir þeim stigum sem eru í boði."
Viðtalið í heild sinni má sjá í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir