Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
banner
   mán 11. október 2021 18:31
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Eiður Smári: Ætla ekki að eyða orku í leikmenn sem eru ekki á svæðinu
Icelandair
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stefán Teitur Þórðarson.
Stefán Teitur Þórðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarlandsliðsþjálfari, spjallaði við Eddu Sif Pálsdóttur hjá RÚV fyrir landsleikinn gegn Liechtenstein í undankeppni HM í kvöld.

Skagamaðurinn Stefán Teitur Þórðarson kemur inn í byrjunarliðið fyrir leikinn og spilar sinn fyrsta keppnisleik með A-landsliðinu.

„Við missum báða bakverðina í bann eftir síðasta leik. Þá eru tveir aðrir klárir. Birkir verður djúpur á miðjunni og Stefán Teitur kemur inn," sagði Eiður Smári.

„Við þekkjum Stefán Teit vel úr U21 landsliðinu. Við teljum hann hafa tekið stór skref með sínu félagsliði. Hann hefur verið að spila vel undanfarið. Það er góð orka í honum og hann þekkir hlutverkið sem við viljum fá frá honum. Við hlökkum til að sjá hann í hans fyrsta alvöru byrjunarliðsleik."

Gerðar eru fjórar breytingar frá 1-1 leiknum gegn Armeníu. Ari Freyr og Birkir Már eru í banni og Guðlaugur Victor ákvað að draga sig úr hópnum til að einbeita sér að félagsliði sínu. Hjörtur Hermannsson fer á bekkinn.

Inn fyrir þá koma Daníel Leó Grétarsson, Guðmundur Þórarinsson, Alfons Sampsted og Stefán Teitur Þórðarson. Stefán er að spila sinn fyrsta leik í undankeppninni.

Eiður var spurður út í Guðlaug Victor sem ákvað að fara úr hópnum. „Það er einn og hálfur tími í leik, ég ætla ekki að eyða orku í leikmenn sem eru ekki á svæðinu. Við gætum talið upp þónokkuð marga."

„Við gerðum honum grein fyrir því að við vildum halda honum. Við erum í vissri uppbyggingu og hann er hluti af því. Leikmaðurinn hefur rétt á því að taka sína ákvörðun. Þá er bara einn á hliðarlínunni sem kemur og fyllir í skarðið."

Ísland er með lið sem á að vinna Liechtenstein. „Við eigum að vinna þetta lið. Við erum í hærri gæðaflokki en Liechtenstein. Það hvernig við nálgumst leikinn hugarfarslega, byrjum við rétt út frá stöðum, tökum við réttu hreyfingarnar, náum við að setja nógu mikla pressu á andstæðinginn til að uppskera mörk... það er það eina sem getur sett okkur út af laginu, ef við erum ekki klárir frá fyrstu mínútu," sagði Eiður.
Athugasemdir
banner
banner