Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   lau 12. janúar 2019 13:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Krísa í Madríd - Vildi halda Ronaldo og selja Bale
Zidane og Cristiano Ronaldo.
Zidane og Cristiano Ronaldo.
Mynd: Getty Images
Mariano Diaz.
Mariano Diaz.
Mynd: Getty Images
Sergio Ramos er fyrirliði Real Madrid.
Sergio Ramos er fyrirliði Real Madrid.
Mynd: Getty Images
Lionel Messi og Luis Suarez hafa skorað 28 mörk í spænsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili, meira en allt Real Madrid liðið til samans. Real hefur skorað 26 mörk.

Real seldi Cristiano Ronaldo til Juventus síðasta sumar og það hefur reynst gríðarlega þungt högg fyrir Madrídarliðið, þyngra högg en greinilega var búist við hjá stórveldinu.

Gareth Bale átti að stíga upp en hann er enn og aftur meiddur.

Real er í fimmta sæti spænsku úrvalsdeildarinnar þegar tæplega helmingur leikja er búinn. Jafnvel er hætta á því að liðið missi af Mesitaradeildarsæti fyrir næsta tímabil.

Bleacher Report birtir grein um vandræði Real Madrid í gær og fjallar um að mestu um hversu mikil áhrif brotthvarf Ronaldo hafði.

Í greininni er að finna áhugaverð ummæli hjá Ramon Calderon, fyrrum forseta Real Madrid, en hann heldur því fram að Zinedine Zidane hafi hætt sem stjóri Real eftir að hann sá í hvað stefndi. Hann bað um að Bale yrði seldur, ekki Ronaldo.

„Það er alveg ljóst hvenær Zidane tók þá ákvörðun að hætta. Hann vildi halda Cristiano Ronaldo og selja Bale, og forsetinn gerði nákvæmlega öfugt við það. Zidane vildi líka kaupa leikmenn og selja aðra en Bale. En hann fékk ekki að gera það og fór því. Það var rétt ákvörðun hjá honum," sagði Calderon.

Eins og að skipta Lebron fyrir Abrines
Manu Sainz, blaðamaður hjá Diario AS á Spáni, segir að Ronaldo hafi verið vanmetinn í Madríd. Ronaldo samdi við Juventus síðasta sumar og þar hefur hann haldið uppteknum hætti.

„Cristiano, sem er mikilvægasti fótboltamaður í heimi ásamt Messi, var vanmetinn í Madríd. Madrídingar vilja segja að enginn sé stærri en félagið og með þeim orðum reyndu þeir að réttlæta brotthvarf Ronaldo. Sannleikurinn er sá að Real Madrid er stórt félag vegna þess að frábærir leikmenn hafa spilað fyrir það."

„Núna er Real Madrid stórt félag með lítið lið, lið sem getur ekki veitt Barcelona og Atletico Madrid samkeppni."

Hinn 25 ára gamli Mariano Diaz var keyptur frá Lyon í sumar og fékk hann sjöuna sem Ronaldo hafði klæðst nánast allan sinn tíma hjá Real Madrid.

Mariano þessi hefur aðeins byrjað einn leik í spænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Hann hefur verið að glíma við meiðsli, en Sainz líkir skiptunum á Ronaldo og Mariano, við það að skipta á Lebron James eða Stephen Curry og fá í staðinn Alex Abrines. Fyrir þá sem fylgjast ekki með NBA-deildinni í körfubolta þá eru James og Curry ofurstjörnur og bestu leikmenn deildarinnar, en Abrines er bekkjarvermir í Oklahoma.

Vantar leiðtoga
Sainz segir að Real sakni líka leiðtogahæfileika Ronaldo, en hann var mikill leiðtogi innan vallar. Sergio Ramos er fyrirliði Real Madrid, en hann er öðruvísi leiðtogi en Ronaldo.

„Það vantar leiðtoga, Sergio Ramos er ekki leiðtogi á vellinum. Hann ákveður hvenær liðið á skilið bónus, hvenær liðið á að fara út að borða og þess háttar. Hann drífur ekki liðið áfram með sér inn á vellinum eins og Cristiano."

Calderon er sammála. „Málið með Cristiano var það að hann skoraði ekki aðeins 50 mörk á tímabili, en hann var líka leiðtogi. Hann hjálpaði liðsfélögum sínum, hann var alltaf að hvetja þá að bæta sig, að æfa meira. Það er aðalvandamálið, ekki bara mörkin sem fóru með honum, líka viðhorfið."

Það verða líklega gerðar stórar breytingar fyrir næsta tímabil. Santiago Solari fær eflaust ekki að halda áfram sem stjóri liðsins, en Mauricio Pochettino og Jose Mourinho hafa verið orðaðir við starfið. Þá þarf félagið að fjárfesta í ofurstjörnu sem mun lýsa upp Santiago Bernabeu að nýju, leikmanni eins og Neymar eða Kylian Mbappe.

Smelltu hér til að lesa grein Bleacher Report í heild sinni.

Madrídarstórveldið á útileik gegn Real Betis í spænsku úrvalsdeildinni á morgun.
Athugasemdir
banner
banner
banner