Daniel Sturridge, fyrrum samherji Mohamed Salah hjá Liverpool, segir að Egyptinn vilji ekki fara frá félaginu, en þetta sagði hann við Amazon í gær.
Helstu spekingar Bretlandseyja hafa gagnrýnt Salah og ummæli hans í garð Arne Slot Liverpool á síðustu dögum, en Sturridge tók aðra nálgun.
Hann var vissulega vonsvikinn með að Salah hafi farið með málið í fjölmiðla.
„Ég held að ástæðan fyrir þessari ákvörðun hans er sú að hann er ekki að spila. Það kom honum í opna skjöldu. Ég er vonsvikinn með vin minn. Viðbrögðin voru léleg og hann gerði þetta á skelfilega rangan hátt. Hann getur jafnað sig af þessu og komist aftur í sitt besta form, en við erum að horfa á þetta sem einhverskonar augnablik í geðshræringu,“ sagði Sturridge.
„Félagið er komið í þá stöðu eins og það þurfi að losa sig við hann, en í öllum samböndum og hjónaböndum eru hæðir og lægðir, erfiðir tímar, rifrildi og öskur, en svo kemur spurningin: „Elskaru mig eða ekki? Ætlum við að komast í gegnum þetta? Viltu vera áfram með mér? Setjið egó-ið og stoltið til hliðar.“
Hann segist sjálfur hafa rætt við Salah sem segist vilja spila áfram með Liverpool.
„Mo sagði mér að hann elskar félagið og vill ekki fara frá félaginu, en hann vill spila fótbolta,“ sagði Sturridge á Amazon.
Athugasemdir



