Barca vill Dani Olmo - Crystal Palace að bjóða í Smith Rowe - Sergi Roberto vill enska boltann - Newcastle spyrst fyrir um Madueke
   fim 13. júní 2024 21:50
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Þriðji í röð hjá Aftureldingu - Njarðvík á toppinn
Lengjudeildin
Mynd: Raggi Óla
Mynd: Raggi Óla
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Afturelding vann þriðja deildarleikinn sinn í röð er liðið heimsótti Þrótt R. í Lengjudeildinni í kvöld.

Lestu um leikinn: Þróttur R. 1 -  2 Afturelding

Leikurinn fór fjörlega af stað þar sem Andri Freyr Jónasson tók forystuna snemma leiks fyrir gestina úr Mosfellsbæ. Andri Freyr skoraði á áttundu mínútu eftir mikinn atgang í vítateig Þróttara en heimamenn jöfnuðu beint í kjölfarið.

Þróttur geystist upp völlinn beint eftir miðju og kom föst fyrirgjöf inn af hægri kanti sem Gunnar Bergmann Sigmarsson fékk í sig og þaðan hrökk boltinn í netið. Óheppilegt sjálfsmark fyrir Gunnar en staðan orðin jöfn.

Bæði lið fengu færi til að taka forystuna en boltinn rataði ekki í netið fyrir leikhlé. Það ríkti þokkalegt jafnræði með liðunum í seinni hálfleik þar sem bæði lið fengu álitleg færi, án þess þó að takast að setja boltann í netið fyrr en á 79. mínútu.

Sigurpáll Melberg Pálsson var þar á ferðinni þegar hann skoraði með kröftugum skalla eftir hornspyrnu til að endurheimta forystuna fyrir Aftureldingu.

Þróttarar sóttu mikið á lokakafla leiksins og komust í dauðafæri en þeim tókst ekki að skora jöfnunarmark og urðu lokatölurnar 1-2.

Þetta var þriðji sigur Aftureldingar í röð og er liðið í þriðja sæti deildarinnar, með 11 stig eftir 7 umferðir. Þróttur situr eftir með fimm stig.

Þróttur R. 1 - 2 Afturelding
0-1 Andri Freyr Jónasson ('8)
1-1 Gunnar Bergmann Sigmarsson ('9, sjálfsmark)
1-2 Sigurpáll Melberg Pálsson ('79)Njarðvík lagði ÍR þá að velli á sama tíma til að koma sér upp í toppsæti deildarinnar, tveimur stigum fyrir ofan Fjölni sem á leik til góða.

Lestu um leikinn: Njarðvík 3 - 0 ÍR

Dominik Radic kom heimamönnum yfir snemma leiks eftir frábæran undirbúning frá Tómasi Bjarka Jónssyni.

Njarðvíkingar byrjuðu með vindinn í bakið og voru sterkari aðilinn. Oumar Diouck klúðraði dauðafæri skömmu áður en Arnar Helgi Magnússon tvöfaldaði forystuna á 21. mínútu, með marki eftir góða hornspyrnu frá Oumar.

ÍR-ingar vöknuðu heldur betur til lífsins við þetta mark en tókst ekki að skora þrátt fyrir frábærar tilraunir. Staðan var því 2-0 í leikhlé eftir gríðarlega fjörugan fyrri hálfleik þar sem Njarðvíkingar voru heppnir að halda hreinu.

Seinni hálfleikurinn var nokkuð jafn þar sem bæði lið fengu góð færi en hreint með ólíkindum að ÍR hafi ekki tekist að skora. Þess í stað innsiglaði Dominik Radic sigur Njarðvíkinga með öðru marki sínu í leiknum. Dominik innsiglaði sigurinn á 87. mínútu þegar hann fylgdi skoti frá Amin Cosic eftir með marki af stuttu færi.

Lokatölur urðu 3-0 og er Njarðvík með 16 stig eftir 7 umferðir. ÍR er aðeins með 6 stig.

Njarðvík 3 - 0 ÍR
1-0 Dominik Radic ('5)
2-0 Arnar Helgi Magnússon ('21)
3-0 Dominik Radic ('87)
Athugasemdir
banner
banner
banner