Eze og Olise gætu sameinast á ný - Veglegur launapakki Wirtz - De Bruyne á leið til Napoli
   þri 13. desember 2022 07:30
Brynjar Ingi Erluson
Ten Hag um Maguire: Viljum að hann komi með sömu orku og með enska landsliðinu
Harry Maguire
Harry Maguire
Mynd: EPA
Erik ten Hag
Erik ten Hag
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Harry Maguire, varnarmaður Manchester United og enska landsliðsins, átti fínasta mót með Englandi á HM í Katar og virðist hafa fundið sitt gamla form en Erik ten Hag, stjóri Man Utd, vonast til að hann komi með sömu orku í leik sinn hjá félaginu.

Mikið hefur verið rætt og ritað um frammistöðu Maguire á síðustu tveimur árum hjá United.

Hann er ekki fastamaður hjá félaginu og þurft að fylgjast með þeim Lisandro Martínez og Raphael Varane spila í miðri vörn á meðan hann situr á bekknum.

Maguire er byrjunarliðsmaður hjá enska landsliðinu og sýndi það að hann er að finna sitt gamla form. Spilamennska hans var afar góð á mótinu en núna er hann á leið aftur til United og vonast Ten Hag til að sjá það sama hjá félaginu.

„Ég styð hann. Ég hef verið margspurður að því hvort hann sé nógu góður til að spila fyrir mig og það er ljóst að hann er nógu góður til að spila á hæsta stigi. Það er svo undir honum komið að sýna sjálfstraustið á vellinum og hann hefur ekki gert það í öllum leikjum fyrir United.“

„Þegar hann spilar fullur af sjálfstrausti, eins og hann er að gera núna, þá er hann ótrúlega mikilvægur fyrir okkur og þetta er það sem allir búast við af honum. Hann býst við þessu frá sjálfum sér.“

„Hann vill spila á hæsta stigi og vill leiða varnarlínuna, þannig þetta er undir honum komið. Ég er viss um að hann hafi getuna til að spila okkar leikstíl og passa inn í leikkerfið.“

„Hann hefur gert það með Englandi og næstum allir leikirnir hafa verið góðir. Það kom kafli hjá Man Utd þar sem hann spilaði illa og svo koma auðvitað erfiðleikar en þegar hann er öruggur með sig þá kemur hann með það á völlinn. Þegar hann leggur hart að sér þá færðu þetta sjálfstraust og þú sérð það á því hvernig hann er að spila fyrir England.“

„Við viljum að hann komi með þessa orku til Manchester og nái að skila því sama á völlinn með liðinu. Ég býst við því frá honum og liðið veit nákvæmlega við hverju það býst frá honum. Ef hann kemur með það sama þá verður hann frábær leikmaður fyrir okkur.“


Maguire byrjaði aðeins einn leik í úrvalsdeildinni fram að HM en hann mun fá fleiri tækifæri.

„Þegar ég vel Rapha fram yfir Harry þá er það ekki af því ég hafi eitthvað gegn Harry. Stundum er það að af því annar leikmaðurinn er miklu betri en hinn. Ég er held ég með tvo eða þrjá góða leikmenn í hægri miðvarðarstöðuna.“

„Eftir Brentford-leikinn þá tók ég ákvörðun. Ég hafði tilfinningu fyrir því að það þyrfti að breyta til í þessari stöðu. Þetta var persónuleg tilfinning en ég þurfti að breyta hugarfarinu. Hann var óheppinn að þetta augnablik hafi verið slæmt fyrir hann en það segir ekkert um gæði hans eða skoðun mína á honum.“

„Rapha kom inn og er að gera góða hluti. Það er nú bara þannig að þú þarft að nýta tækifærin og þau munu alltaf koma. Eina sem Maguire verður að gera er að æfa vel, standa sig vel og hann mun fá leiki og þá kemur flæðið. Tækifærin koma. Hann mun fá tækifærið til að sýna hvað hann getur.“

„Ég hef ekkert á móti honum þó ég velji hann sjaldan. Ég er með Varane og Lindelöf og er í góðri stöðu því þeir eru stabílir og miðverðirnir í liðinu eru í háum gæðaflokki.“


Er ekki að hugsa um að selja Maguire

Ten Hag segir það ekki koma til greina að selja hann í augnablikinu en nú sé þeta undir Maguire komið að standa sig vel á æfingum.

„Ég mun bara gera það ef hann vill ekki vera í þessum aðstæðum lengur. Þangað til er ég ánægður að vera með hann. Ég hef sagt það við hann og ykkur og það er ekkert meira sem ég get gert. Nú er þetta undir honum komið að leggja sig fram við að komast í liðið,“ sagði Ten Hag.
Athugasemdir
banner