Munoz, Gallagher og Adams orðaðir við Man Utd - Man City vill fá Marc Guehi
banner
   þri 16. desember 2025 13:05
Enski boltinn
„Minnir á Lukaku, bara ekki eins góður í fótbolta"
Viktor Gyökeres.
Viktor Gyökeres.
Mynd: Arsenal
Gyökeres hefur ekki verið sérlega góður með Arsenal á tímabilinu.
Gyökeres hefur ekki verið sérlega góður með Arsenal á tímabilinu.
Mynd: EPA
Viktor Gyökeres hefur ekki átt sjö dagana sæla eftir að hann gekk í raðir Arsenal síðastliðið sumar.

Gyökeres raðaði inn mörkum með Sporting Lissabon í Portúgal áður en hann var keyptur til Arsenal fyrir 65 milljónir evra í sumar. Hann hefur hingað til skorað fjögur mörk í 14 leikjum í ensku úrvalsdeildinni en öll mörkin hafa komið gegn liðum sem eru í fallbaráttu.

Gyökeres átti að vera lausnin fyrir framherjavandamál Arsenal en miðað við frammistöðuna hingað til er hann engan veginn nægilega góður í það hlutverk. Sumir hafa jafnvel afskrifað hann nú þegar.

„Er hann vandamálið eða er uppleggið vandamálið? Hann snertir varla boltann í leikjunum," sagði Magnús Haukur Harðarson í Enski boltinn hlaðvarpinu.

„Við erum að gleyma því hvernig á að spila upp á níur. Það er kannski vandamálið fyrir hann því mér hefur fundist hann vinna vel og pressa vel."

„Mér finnst hann bara ekki vera með fótboltahæfileikana til að takast á við ensku úrvalsdeildina," greip Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson þá inn í.

„Mér finnst hann minna mig svolítið á Romelu Lukaku í snertingum og þess háttar, bara ekki eins góður í fótbolta."

„Við sjáum það reyndar að gæinn sem tók við af honum í Portúgal er að skora nánast jafnmikið," sagði Magnús Haukur. „Það tekur líka tíma fyrir leikmenn að aðlagast þessari deild."

Hægt er að hlusta á alla umræðuna í spilaranum hér fyrir neðan.
Enski boltinn - Hvað ertu eiginlega að tala um?
Athugasemdir
banner
banner
banner