Sparkspekingurinn Gary Neville, sem er fyrrum leikmaður Manchester United, tjáði sig eftir 4-4 jafntefli liðsins gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.
Neville talaði til hlustenda í spjallvarpsþættinum sínum og hrósaði Ruben Amorim þjálfara fyrir sveigjanleikann sem hann sýndi í síðari hálfleik.
Talað var um það fyrir upphafsflautið að Amorim gæti breytt um leikkerfi gegn Bournemouth. Það væri í fyrsta sinn sem Amorim breytir leikkerfi liðsins fyrir leik en hann hefur fengið mikla gagnrýni fyrir að vera ekki nægilega sveigjanlegur þegar kemur að taktískri nálgun.
„Þetta var stórkostlegur fótboltaleikur. Ég var mjög gagnrýninn á frammistöðu Man Utd eftir leikina gegn Everton og West Ham útaf því að það vantaði alla ákefð í leik liðsins. Leikurinn í kvöld var gjörsamlega andstæðan við það," sagði Neville.
„Þetta var frábær frammistaða og maður sá að leikmenn voru ákveðnir. Þeir voru jákvæðir, ákafir og spiluðu af miklum krafti. Þeir gáfu ekkert eftir og voru allan tímann á fullri ferð. Þó að niðurstaðan sé svekkjandi jafntefli þá var ég ánægður og stuðningsmenn voru það augljóslega líka. Það var baulað mikið á liðið eftir leikina gegn Everton og West Ham en það gerðist ekki eftir leikinn í kvöld. Við sáum að margir stuðningsmenn urðu eftir á Old Trafford til að klappa fyrir leikmönnum liðsins.
„Það besta sem gerðist var í seinni hálfleik þegar United lenti undir í fyrsta sinn og Ruben Amorim ákvað að breyta um leikkerfi. Hann skipti yfir í 4-4-2 og það svínvirkaði. Hann gerði hárréttar skiptingar á réttu augnabliki og breytti um leið leikkerfinu."
Þarna er Neville að tala um innkomu Benjamin Sesko, Lisandro Martínez Kobbie Mainoo af varamannabekknum. Sesko fór í fremstu víglínu við hlið Bryan Mbeumo, með Matheus Cunha og Amad Diallo á köntunum. Martínez fór í varnarlínuna og tyllti Mainoo sér við hlið fyrirliðans Bruno Fernandes á miðjunni.
„Þetta var mikil skemmtun fyrir alla áhorfendur. Þeir eru kannski ekki ánægðir með úrslitin en þeir geta verið ánægðir með frammistöðuna. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að fólk mætir á Old Trafford, skemmtun og ástríða. Auðvitað vill fólk sjá liðið sitt vinna fótboltaleiki og titla en að mínu mati er nauðsynlegt að frammistaðan og leikstíllinn séu fyrst í lagi hjá þessu félagsliði.
„Þetta var slök frammistaða varnarlega en það var hægt að reikna með því fyrir leikinn. (Matthijs) De Ligt, (Harry) Maguire og (Lisandro) Martínez voru ekki að spila og það voru ungir varnarmenn í stað þeirra í hjarta varnarinnar. Þetta leit ekki út fyrir að vera varnarlína sem myndi halda hreinu og maður hugsaði með sér fyrir leikinn að United þyrfti að skora fjögur til að vinna í kvöld, en það dugði ekki til. Þeir hefðu þurft að skora fimm."
Athugasemdir


