Munoz, Gallagher og Adams orðaðir við Man Utd - Man City vill fá Marc Guehi
banner
   þri 16. desember 2025 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Amass og Obi brugðust við ummælum Amorim
Mynd: EPA
Mynd: Man Utd
Mynd: EPA
Ruben Amorim þjálfari Manchester United ræddi um leikmannahópinn sinn fyrir upphafsflautið gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Þar ræddi hann meðal annars um Kobbie Mainoo og aðra unga leikmenn félagsins sem hann telur ekki hafa verið að standa sig nægilega vel. Hann sagði að Mainoo væri búinn að fá mikið af tækifærum án þess að nýta þau og benti á að nokkrir aðrir unglingar úr röðum Man Utd væru að eiga erfitt uppdráttar.

Amorim hefur verið gagnrýndur fyrir að nýta ekki ungu leikmenn Man Utd en hann telur þá ekki vera tilbúna fyrir aðalliðið. Hann notaði Harry Amass og Chido Obi, sem eru báðir 18 ára gamlir, í nokkrum leikjum á síðustu leiktíð en var ekki nægilega ánægður með þá. Obi kom við sögu í átta leikjum og Amass í sjö þar sem hann var í byrjunarliði Rauðu djöflanna fjórum sinnum í ensku úrvalsdeildinni.

Obi leikur fyrir varalið Man Utd á meðan Amass er á láni hjá Sheffield Wednesday, botnliði ensku Championship deildarinnar, og var valinn leikmaður mánaðarins hjá félaginu í nóvember. Amass hefur verið meðal bestu leikmanna Sheffield í haust og gæti verið á förum frá félaginu í janúar vegna mikils áhuga frá sterkari liðum úr deildinni sem vilja fá táninginn lánaðan til sín.

„Kobbie hefur fengið mikið af tækifærum og þá sérstaklega á síðustu leiktíð. Ungu strákarnir hafa allir fengið sín tækifæri. (Harry) Amass er í erfiðleikum í Championship deildinni og Chido (Obi) er ekki alltaf í byrjunarliðinu hjá U21. Allir þessir strákar voru að spila í fyrra á tímapunkti sem allir fjölmiðlar voru að segja að Man Utd ætti að reka stjórann sinn. Þetta ætti að sýna fólki að ég hef engar áhyggjur af fjölmiðlum eða öðrum sem dæma mig og að ég er ekki smeykur við að nota unga leikmenn ef mér líður eins og þeir geti bætt gæðin í byrjunarliðinu," sagði Amorim við Sky Sports fyrir leik.

Táningarnir tóku ekki vel í þessi orð Amorim og birtu báðir færslur á samfélagsmiðlum í gærkvöldi, sem voru teknar niður skömmu síðar.

Amass svaraði ummælum Amorim með myndbirtingu af sjálfum sér haldandi á verðlaunum fyrir að vera besti leikmaður nóvember mánaðar hjá Sheffield Wednesday og lét brosandi tjákn fylgja með.

Obi svaraði með myndbandi á Instagram af sjálfum sér að fagna marki með varaliði Man Utd gegn varaliði Manchester City í ágúst.
Athugasemdir
banner