Fanndís Friðriksdóttir, ein besta fótboltakona sem Ísland hefur alið, lagði nýverið skóna á hilluna eftir afar farsælan feril. Fanndís, sem er 35 ára, var sóknarsinnaður leikmaður sem þreytti frumraun sína í meistaraflokki fyrir 20 árum.
Hún er ein af einungis þrettán leikmönnum Íslands sem hafa spilað yfir 100 landsleiki, en alls á Fanndís að baki 110 A-landsleiki og skoraði í þeim 17 mörk.
Hún er ein af einungis þrettán leikmönnum Íslands sem hafa spilað yfir 100 landsleiki, en alls á Fanndís að baki 110 A-landsleiki og skoraði í þeim 17 mörk.
Fanndís, sem er tveggja barna móðir, lék síðustu árin á ferli sínum með Val þar sem hún varð þrisvar Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari.
Hún átti frábært tímabil í sumar með Val og var langbesti leikmaður liðsins. Þrátt fyrir það fékk hún ekki nýjan samning hjá Hlíðarendafélaginu.
„Það hefur verið lenskan hjá Val að maður hefur runnið út á samning áður en það kemur nýr," sagði Fanndís. „Maður þarf líka alltaf að líta inn á við. Af hverju eru stelpur alltaf bara að gera eins árs samninga?"
„Mér var tjáð það í lok tímabils að það væri áhugi fyrir að semja um eitt ár í viðbót en það yrði einhver launaskerðing og svoleiðis. Ég settist niður með tveimur mönnum og við ræddum það. Ég vildi fá að vita hvað það væri. Ég var ekki búin að taka ákvörðun um að hætta á þeim tímapunkti. Ég vildi sjá hvað ég hefði í höndunum."
„Það er skrítið að skerða laun besta leikmannsins," sagði Magnús Haukur Harðarson sem var einnig í þættinum.
„Já, eða þá taka ákvörðun seinna meir um að semja ekki við hann," sagði Fanndís.
„Natasha var ekki að fara að endursemja, það var ekki samið við Örnu Sif. Er ég næst í röðinni? Svo var mér tjáð að þeir ætluðu ekki að endursemja við mig. Ég sagði að mér fyndist það skrítið og ég þakkaði fyrir mig. Ég óskaði þeim góðs gengis."
Gerið þá vel við hana
Valur virðist vera að losa sig við flestalla reynslumikla leikmenn í kvennaliðinu sem kosta einhvern pening. Elísa Viðarsdóttir, sem hefur verið fyrirliði liðsins í fjöldamörg ár, virðist einnig vera á förum þar sem samningaviðræður hafa ekki gengið vel.
„Eitthvað er búið að skera fjármagnið. Gerið þá vel við hana sem á það svo sannarlega skilið. Hún hefur skilað engri smá vinnu fyrir félagið," sagði Fanndís.
„Félagið virðist vera tilbúið að borga leikmanni karlaliðsins samning án þess að hann þurfi að æfa. Eitthvað hlýtur nú að vera til," sagði Magnús Haukur.
„Þú færð ekki betri fyrirmynd fyrir krakka en Elísu. Þetta er sorglegt," sagði Fanndís.
Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir neðan.
Athugasemdir





