Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fös 14. maí 2021 06:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Úrslitaleikurinn í þeirri elstu og virtustu - Vilja vinna fyrir Vichai
Leicester hefur aldrei unnið FA-bikarinn áður.
Leicester hefur aldrei unnið FA-bikarinn áður.
Mynd: EPA
Chelsea hefur verið á fleygiferð undir stjórn Thomas Tuchel.
Chelsea hefur verið á fleygiferð undir stjórn Thomas Tuchel.
Mynd: Getty Images
Á morgun verður leikið til úrslita í þeirri elstu og virtustu; FA-bikarkeppninni á Englandi.

Það eru Chelsea og Leicester sem eigast við í úrslitaleiknum á Wembley.

Leicester hefur aldrei unnið keppnina þrátt fyrir að hafa fjórum sinnum áður komist í úrslit. Liðið fór síðast í úrslit 1969 og tapaði þá 1-0 fyrir Manchester City. Chelsea hefur unnið keppnina átta sinnum, síðast 2018.

Þetta verður sérstakur dagur fyrir Leicester en Brendan Rodgers, stjóri liðsins, hefur talað um það að liðið ætli sér að vinna keppnina fyrir Vichai Srivaddhanaprabha og fjölskyldu hans. Vichai og fjórir aðrir létu lífið í þyrluslysi fyrir utan heimavöll Leicester árið 2018.

Vichai keypti Leicester City fyrir 39 milljónir punda árið 2010 og undir hans stjórn náði félagið mögnuðum árangri. Leicester komst upp úr Championship-deildinni 2014 og vann ensku úrvalsdeildina 2016. Að Leicester skyldi vinna ensku úrvalsdeildina 2016 er eitt magnaðasta afrek í sögu fótboltans. Líkurnar fyrir tímabilið voru 5000 gegn einum.

Tælendingurinn var gríðarlega vinsæll hjá Leicester og í samfélaginu. Hann styrkti meðal annars spítala í borginni og aðstoðaði mann einn sem hafði misst eiginkonu sína og syni í sprengingu í borginni.

Aiyawatt Srivaddhanaprabha, sonur Vichai, er núverandi stjórnarformaður félagsins.

„Ég myndi elska það að vinna þennan leik fyrir Khun Vichai og fjölskyldu hans," segir Rodgers. „Það væri svo sannarlega sérstakt."

Til þess að komast alla leið þarf Leicester að komast í gegnum Chelsea sem hefur verið á fleygiferð frá því að Thomas Tuchel tók við í janúar. Hann hefur gert frábæra hluti, hann er búinn að koma Chelsea í Meistaradeildarsæti og í tvo úrslitaleiki; þennan og úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Leikurinn hefst klukkan 16:15 á morgun og það verður spennandi að sjá hvernig fer.
Athugasemdir
banner