Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 14. júní 2021 21:00
Brynjar Ingi Erluson
EM: Dauðafærin fóru forgörðum í Sevilla
Robin Olsen átti frábæran leik í markinu
Robin Olsen átti frábæran leik í markinu
Mynd: EPA
Spánn 0 - 0 Svíþjóð

Spánn og Svíþjóð gerðu markalaust jafntefli í E-riðli Evrópumótsins í kvöld. Það er í raun ótrúlegt að ekkert mark hafi verið skorað en nóg var af færum.

Eins og við var að búast var spænska liðið mun meira með boltann og spilaði hratt sín á milli á meðan vörn sænska liðsins var djúp og reyndi liðið svo að beita hröðum skyndisóknum með Alexander Isak þar fremstan í fararbroddi.

Fyrsta dauðafærið kom á 16. mínútu. Koke átti fyrirgjöf inn í teiginn og var Dani Olmo mættur til að stanga boltann en Robin Olsen varði meistaralega frá honum. Olsen vel staðsettur og var fljótur að koma sér í hornið.

Spánn hefði átt að komast yfir á 38. mínútu er Marcus Danielson gerði slæm varnarmistök sem hleypti Alvaro Morata í gegn en skot hans fór framhjá. Olsen gerði sig breiðan í markinu og neyddi Morata í erfiða skotstöðu.

Svíar fengu ekki mörg færi en færin sem þeir fengu voru afar góð.

Alexander Isak var hársbreidd frá því að koma Svíþjóð yfir á 41. mínútu. Hann slapp í gegn hægra megin í teignum, reyndi skot sem fór af varnarmanni og aftur á hann. Seinna skotið var á leið í markið áður en Marcos Llorente mætti, bjargaði á línu með því að sparka boltanum í stöngina.

Markalaust í hálfleik. Svíar fengu annað dauðafæri á 61. mínútu eftir frábært einstaklingsframtak frá Isak. Hann keyrði sig í gegnum vörn Spánverja og bjó til eitthvað úr engu.

Isak kom því næst boltanum á fjærstöngina á Marcus Berg sem þurfti bara að pota boltanum í átt að markinu til að skora en á einhvern ótrúlegan hátt skaut hann yfir.

Olmo fékk annað tækifæri til að skora fyrir Spán á 73. mínútu en boltinn var á leið útaf hægra megin á vellinum er Llorente mætti á ferðinni og kom honum fyrir á Olmo sem lagði hann fyrir sig og skaut á markið en Danielson náði að komast fyrir á ögurstundu.

Olsen varði undir lok leiksins skalla frá Gerard Moreno. Svíinn einn besti maður leiksins í kvöld ásamt vörn sænska liðsins.

Svíar náðu að standa af sér pressuna og fagna stiginu gegn frábæru liði Spánverja. Lokatölur 0-0. Svíar mæta Slóvakíu í næstu umferð á meðan Spánn mætir Póllandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner