„Það var virkilega sætt að ná sigri hérna. Þetta hefur reynst okkur gríðarlega erfiður útivöllur í gegnum tíðina." sagði Sölvi Geir Ottesen þjálfari Víkings Reykjavíkur eftir góðan 2-1 útisigur á Breiðablik í Bestu deild karla.
Lestu um leikinn: Breiðablik 1 - 2 Víkingur R.
„Strákarnir eru búnir að vera frábærir í allt sumar, alltaf tilbúnir að hlaupa fyrir hvorn annan, alltaf tilbúnir að taka slaginn. Ég er virkilega sáttur með það og það er ennþá hungur í þeim að vinna leiki sem er mjög mikilvægt þótt við séum orðnir meistarar og Víkingar fara inn í hvern einasta leik til að vinna þá."
Breiðablik komst yfir undir lok fyrri hálfleiks. Víkingarnir mættu vel gíraðir inn í seinni hálfleikinn, komu til baka og kláruðu leikinn fagmannlega.
„Þetta var dálítið þannig leikur að það var allt í járnum og svolítið opinn leikur en ég hefði kannski vilja að við yrðum aðeins hugrakkari á boltann og haldið betur í hann en að sama skapi fengum við færi þegar þeir voru í pressu og langt á milli línanna að þá opnaðist mikið svæði og við fengum tvö rosalega góð færi, Atli (Þór Jónasson) í fyrri hálfleik en ég var virkilega ánægður hvernig við brugðumst við í seinni hálfleiknum.."
Nánar var rætt við Sölva í sjónvarpinu hér að ofan.