Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fös 14. ágúst 2020 11:45
Elvar Geir Magnússon
Óli Stefán: Býr til kvíða, pressu og svefnlausar nætur
Óli Stefán Flóventsson var rekinn frá KA.
Óli Stefán Flóventsson var rekinn frá KA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég var bara rekinn, það var þannig," segir Óli Stefán Flóventsson í viðtali við Valtý Björn Valtýsson í Mín skoðun.

Óli mætti til Valtýs í sitt fyrsta stóra viðtal síðan hann var rekinn frá KA um miðjan júlí. Akureyrarfélagið tilkynnti um samkomulag um starfslok en Óli segist einfaldlega hafa fengið sparkið.

„Ég er með fullt af punktum sem ég klikkaði sjálfur á. Ég er pirraður út í sjálfan mig að hafa látið af innsæi mínu sem hefur komið mér ákveðið langt. Mér finnst leiðtoginn í sjálfum mér hafa brugðist í vetur með ákvarðanatökur sem mér leið ekki vel með. Ég lét selja mér hluti sem ég var innst inni ekki ánægður með," segir Óli.

Telur enn að þriggja hafsenta kerfið hafi ekki verið mistök
Eitt af því sem Óli Stefán fékk mikla gagnrýni fyrir var þriggja hafsenta kerfið sem hann spilaði. Betur gekk hjá liðinu í fyrra þegar leikið var með tvo hafsenta en samt ákvað Óli að færa sig aftur í þriggja hafsenta kerfið fyrir sumarið.

„Sérfræðingarnir sögðu að ég hefði ekki mannskap í þriggja hafsenta kerfi þegar mín greining sagði mér að við hefðum ekki mannskap í tvo hafsenta," segir Óli.

Hann viðurkennir þó að hafa verið að búa sig undir að spila með tvo hafsenta í næsta leik þegar hann var rekinn.

„Þetta var komið á þann stað að ég vildi gera það sem umhverfið öskraði á til að fá jákvætt 'input' inn í hópinn."

Valtýr spurði Óla hvort það hefði verið mistök að nota þriggja hafsenta kerfið?

„Ég held ekki. Það er eitthvað sem ég ætla að standa með áfram. Þriggja hafsenta kerfi er í eðli sínu öðruvísi en 90% af liðum á Íslandi að spila. Það eru miklu fleiri kostir fyrir lið sem er kannski ekki búið sömu gæðum og bestu liðin," segir Óli og talar um það markmið sitt að verða bestur á Íslandi í þessu 'game-modeli'

Segist ekki hlusta á umræðuna
Óli hefur verið duglegur að tala um umræðu fjölmiðla og sparkspekinga og hvaða áhrif hún hefur.

„Mér líkaði það vel þegar allt lék í lyndi en þetta er erfitt þegar hávær orð eru sögð og miklir dómar og sleggjur. Ég er þannig gæi að ég er mjög opinn á mínar tilfinningar og er ekkert feiminn við að segja að þetta býr til pressu og kvíða. Þetta býr til svefnlausar nætur," segir Óli.

„Ég tók þá ákvörðun í fyrra að slökkva á þessu svo ég les ekki miðlana. Ég hef ekki horft á eitthvað sem heitir Pepsi mörk, hlustað á podcöst eða lesið miðana ef það er eitthvað sem snýr að deildinni eða mér. Það er ákveðið frelsi í því."

Bjarni Jó fyrstu til að hringja
Óli Stefán var keyrandi þegar KA tilkynnti um brottrekstur hans. Hann segir að Bjarni Jóhannsson, fyrrum þjálfari KA og nú þjálfari Vestra, hafi verið fyrstur til að hringja í sig.

„Það lýsir þessum öðlingsdreng. Hann spjallaði mikið við mig enda hefur hann gengið í gegnum þetta sjálfur. Þessi þrjú símtöl sem ég fékk fyrst eru mér dýrmæt, það voru Bjarni Jó, Kristján Guðmunds sem er algjör snillingur og svo Óli Jó auðvitað. Þetta kunni ég að meta," segir Óli Stefán.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner