mið 14. október 2020 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Er Fernandes að missa trú á Solskjær?
Fernandes og Solskjær.
Fernandes og Solskjær.
Mynd: Getty Images
Það hafa komið upp fréttir þess efnis í dag að Portúgalinn Bruno Fernandes sé búinn að missa trúna á Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóra Manchester United.

Hinn 26 ára gamli Fernandes var tekinn af velli í hálfleik í 1-6 tapinu gegn Tottenham um síðustu helgi. Heimildarmaður Mirror sagði að Fernandes hefði látið vel í sér heyra í hálfleik og meðal annars gagnrýnt leikaðferð United.

Fernandes var keyptur frá Sporting Lissabon í janúar síðastliðnum og var spilamennska hans stór ástæða fyrir því að liðið náði Meistaradeildarsæti á síðustu leiktíð.

Sjá einnig:
Segja Fernandes hafa hækkað röddina vel í hálfleik gegn Spurs

Blaðamaðurinn Duncan Castles sagði frá því í dag að Fernandes væri á þeirri skoðun að Solskjær væri ekki nægilega öflugur knattspyrnustjóri til að leiða United áfram. Aðrir leikmenn í liðinu væru einnig á sömu skoðun.

Fernandes væri einnig pirraður á því hversu illa gekk í félagaskiptaglugganum hjá Man Utd.

Portúgalski blaðamaðurinn Gonçalo Lopes skrifaði á Twitter að það væri satt að Fernandes væri að missa trú á Solskjær.

Hinn ítalski Fabrizio Romano, sem þykir sá áreiðanlegasti í bransanum, segist hins vegar hafa heimildir fyrir því að það séu engin vandamál á milli Fernandes og Solskjær, og engin vandamál á milli Fernandes og félagsins.

Það eru nokkrar mismunandi fréttir af líðan Fernandes, en ljóst er að hann er áfram mjög mikilvægur leikmaður í liði Manchester United, sem mætir Newcastle í ensku úrvalsdeildinni um næstu helgi. United er aðeins með þrjú stig eftir þrjá leiki í deildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner