Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   sun 15. september 2019 08:00
Magnús Már Einarsson
Jói rýnir í úrslitaleikinn: Svindl ef liðin bjóða ekki upp á markaleik
Jóhann Kristinn Gunnarsson.
Jóhann Kristinn Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Fyrri leikur liðanna í sumar endaði með 2-2 jafntefli.
Fyrri leikur liðanna í sumar endaði með 2-2 jafntefli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lillý Rut Hlynsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir í baráttunni.
Lillý Rut Hlynsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir í baráttunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik og Valur mætast í kvöld í næstsíðustu umferð Pepsi Max-deildarinnar. Tala má um leikinn sem hálfgerðan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn en bæði lið eru taplaus í deildinni í sumar.

Jóhann Kristinn Gunnarsson er sérfræðingur Fótbolta.net í Pepsi Max-deild kvenna. Hér að neðan má sjá Jóa rýna í leik kvöldsins.

Jóhann rýnir í úrslitaleikinn
Þá er komið að stærsta leiknum í Pepsi Max deild kvenna þetta tímabilið. Algjör úrslitaleikur milli Breiðabliks og Vals um íslandsmeistaratitilinn.

Fyrir leikinn eru liðin langefst en þó munar tveimur stigum á þeim. Valur er í kjörstöðu fyrir leikinn þar sem jafntefli fer langt með að innsigla sigurinn í deildinni þó einn leikur sé eftir. Skulum samt ekki útiloka neitt í því og það er algjörlega á tandurhreinu að Valsarar eru ekki að fara að spila upp á jafntefli.

Það hentar Breiðablik vel að vera í þeirri stöðu að þurfa sigur. Liðið og starfsfólk í kringum það þekkja vel að vinna og ekki skemmir fyrir stjálfstrausti í aðdraganda leiksins að hafa lagt erfiða andstæðinga að velli í Meistaradeildinni.

Það er gömul klisja og ný að þjálfarar liðanna vilji ekki að leikurinn verði galopinn með mörgum færum. Báðir eru þeir klókir og kunna fræðin upp á tíu. Liðin hafa ekki gefið mikil færi á sér sbr. mörk fengin á sig í sumar. Það ætti því ekki að koma á óvart að liðin myndu þreifa varfærnislega fyrir sér framan af leik. Mörk breyta leikjum og því skulum við vona fyrir okkur áhorfendur að við fáum mark snemma í leiknum.

Talandi um mörk. Bæði lið hafa ógnvekjandi sterka framlínu og leikmenn í miðjustöðum sem allir geta skilað mörkum. Valur hefur skorað 61 mark í 16 leikjum sem er náttúrulega alveg skuggalegt. 48 mörk Breiðabliks er ekki slæmt heldur. Með markatöluna 52 og 25 í plús er náttúrulega hægt að segja að þessi lið séu hreinlega mörgum númerum of stór fyrir þessa deild í ár. Liðið í þriðja sæti er með 3 mörk í plús og fjórða sætið með 1 mark. Öll hin í mínus. Þetta eru ævintýralegir yfirburðir.

Það væri hreinlega verið að svindla á áhugafólki um kvennaknattspyrnu ef þessi lið byðu ekki upp á markaleik!

Sumir velta fyrir sér hvort Meistaradeildarleikur Breiðabliks hafi áhrif á leikinn á sunnudaginn. Það er erfitt að segja til um það en klárlega hefur þetta áhrif á undirbúning liðsins. Formið á stelpunum er það gott að þær verða í toppstandi á sunnudaginn. En leikdagur plús endurhæfingardagur inn í aðdraganda sunnudagsins er auðvitað ekki það sama og að hafa alla daga vikunnar í undirbúning eins og Valur hefur á sama tíma.

En þegar allt kemur til alls þá skiptir máli að vera í standi og með einbeitinguna í lagi þegar dómarinn flautar leikinn á. Elín Metta hefur verið hrikalega öflug fyrir Val og landsliðið undanfarið og líklegt að Blikar einbeiti sér svolítið extra að því að halda henni niðri. Breiðablik veit þó að Hlín, Fanndís og Margrét Lára eru þarna líka svo það þýðir ekkert að hugsa bara um Elínu. Með Hallberu í þessu líka fantaformi þá verða þær að vera á tánum.

Berglind Björg hefur líka verið feykilega öflug undanfarið og glittir í gæði sem fáséð eru fyrir framan markið í undanförnum leikjum. Frábær mörk í Meistaradeildinni gefa varnarlínu Vals tilefni til að blikka augunum eins sjaldan og hægt er því hún er enga stund að koma sér á blindu hliðina og losa sig frá andstæðingunum. Breiðablik er stútfullt af hæfileikum en eins og áður hefur verið komið inn á þá er liðið ungt og ekki eins mikil reynsla þar eins og hjá Val.

Í stórum úrslitaleikjum eins og þessum getur reynsla og yfirvegun skipt miklu máli. Reynslan er klárlega í Val og því segi ég að sigurinn detti þeirra megin þó Breiðablik sé á heimavelli. Við fáum mörk eftir að Breiðablik kemst yfir snemma í leiknum. Spáin hljóðar upp á 4-3 sigur Vals og þekktir markaskorarar skipta með sér mörkunum. Það verður brjáluð stemning á vellinum og áhorfendafjöldamet á leik í efstu deild kvenna í stórhættu. Enda leikurinn eins og stór og þeir geta orðið!

Allir á völlinn!
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner