Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 15. október 2020 12:47
Elvar Geir Magnússon
Heimild: RÚV 
Freysi: Get bara lýst þessum degi sem mjög kaótískum
Icelandair
Freyr Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfari.
Freyr Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyr Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfari segir í samtali við RÚV að síðustu tveir dagar hafi verið þeir furðulegustu á hans þjálfaraferli.

Eftir æfingu daginn fyrir leikinn gegn Belgíu kom í ljós að hann og Erik Hamren aðalþjálfari þyrftu að fara í sóttkví ásamt öllum öðrum í starfsliðinu þar sem Þorgrímur Þráinsson hafði smitast.

Freyr segir að algjör ringulreið hafi skapast og mikil óvissa.

„Svo voru líka bara fullt af hlutum í þessu sem maður þekkti ekkert og þurfti að fá svör við. Eins og hvernig við gætum komið nýju starfsfólki inn og hverjir gætu mögulega komið. Þannig ég get bara lýst þessum degi sem mjög kaótískum. En það rættist mjög vel úr þessu. Allir lögðust á eitt að leysa þessa hnúta," segir Freyr í samtali við Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson á RÚV.

Hann segir að erfiðast hafi verið að fylla skörð lækna og sjúkraþjálfara.

„Það var alltof langur tími sem leið milli þess að þetta gerðist og leikmenn komust í hendur sjúkraþjálfara. Við vorum náttúrulega búnir að æfa mikið og spila leiki og leikmenn líka að spila á þungum velli. Þeir þurftu því eðililega meðferðir. Þannig þegar það var komið gátum við haldið áfram að einbeita okkur að leikplaninu."

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U17 landsliðsins, hefur verið einn nánasti samstarfsmaður Freys í gegnum árin og hann gat komið fljótt inn í undirbúninginn fyrir leikinn.

„Hann er búinn að vera njósnari hjá okkur og þekkir vinnureglurnar okkar. Hann gat komið inn á hótel því hann var búinn að vera með okkur áður og búinn að fara í skimun. Þannig að hann var í rauninni framlengingin af okkur við leikmenn. Hann sá um að setja upp tölvu inni í fundarherberginu og ræsa upp þennan Teams búnað. Þannig að þá gátum við verið með leikmannafundina," segir Freyr.

Arnar Þór Viðarsson kom svo einnig inn í þjálfarateymið og Þórður Þórðarson var markvarðaþjálfari. Hamren og Freyr voru í glerbúri á Laugardalsvelli en í beinu talstöðvasambandi við sína menn á hliðarlínunni. Freyr segist ótrúlega stoltur af því hversu vel tókst til en hlusta má á viðtalið við Frey á heimasíðu RÚV.
Athugasemdir
banner
banner