Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 16. ágúst 2019 10:15
Magnús Már Einarsson
Adrian æfði með liði í sjöttu deild áður en hann fór í Liverpool
Adrian lyftir bikarnum í vikunni.
Adrian lyftir bikarnum í vikunni.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Lífið hefur heldur betur tekið stakkaskiptum hjá spænska markverðinum Adrian undanfarnar vikur. Samningur Adrian hjá West Ham rann út í sumar og í byrjun mánaðarins var óljóst hvar hann myndi spila á komandi tímabili.

Í lok júlí og byrjun ágúst æfði Adrian með UD Pilas sem spilar í sjöttu efstu deild á Spáni. Um er að ræða mjög lítið félag á spænskan mælikvarða en yfir 700 félög eru fyrir ofan það í deildarstiganum þar sem margir riðlar eru í þriðju, fjórðu og fimmtu efstu deildunum.

Adrian æfði með Pilas til að halda sér í formi en vinir hans eru í liðinu. Hann var síðan í viðræðum við Real Valladolid í spænsku úrvalsdeildinni þegar Liverpool kom óvænt inn í myndina.

Liverpool vantaði markvörð eftir að Simon Mignolet gekk í raðir Club Brugge og Jurgen Klopp ákvað að semja við Adrian.

Alisson meiddist í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi og því er Adrian fyrsti kostur í markið hjá Liverpool þessa dagana.

Adrian stimplaði sig heldur betur inn með því að verja vítaspyrnu Tammy Abraham og tryggja Liverpool sigur gegn Chelsea í Ofurbikarnum í fyrrakvöld.

„Þetta hefur verið draumi líkast. Fyrir tveimur vikum var ég að æfa með markmannsþjálfara og vinum mínum í Sevilla. Síðan kom Liverpool og spurði 'viltu skrifa undir?' Það er besta ákvörðun lífs míns," sagði Adrian sáttur eftir leikinn í fyrrakvöld.

Athugasemdir
banner
banner