fös 16. september 2022 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Uppeldisfélag Salah svarar Boehly: Hann er sonur okkar
Mohamed Salah.
Mohamed Salah.
Mynd: Getty Images
Fótboltafélagið Al Mokawloon í Egyptalandi hefur lýst yfir óánægju sinni með Todd Boehly, eiganda Chelsea á Englandi.

Boehly, sem er bandarískur, sat ráðstefnu á dögunum þar sem hann talaði meðal annars um stjörnuleik í ensku úrvalsdeildinni. Hann hefði þó líklega átt að kynna sér málin betur þegar hann fór að tala um þá sterku akademíu sem Chelsea býr yfir.

Chelsea er vissulega með mjög sterka akademíu en Boehly minntist á það að leikmenn eins og Mohamed Salah og Kevin de Bruyne hefðu komið úr henni.

Salah og De Bruyne spiluðu með Chelsea á sínum tíma en þeir komu ekki úr akademíu Chelsea - langt því frá.

Salah ólst upp hjá Al Mokawloon en félagið er ósátt við það sem Boehly lét frá sér.

Mohamed Adel Fathi, sem er í stjórn egypska félagsins, svaraði með færslu á Facebook þar sem hann sagði: „Þarna sýnir eigandi Chelsea að hann skortir skilning á fótbolta. Við erum stolt af Mohamed Salah og það er heiður að hann sé einn af okkar sonum. Allur heimurinn veit að hann byrjaði hjá okkur, nema eigandi Chelsea."

Salah hóf feril sinn með Al Mokawloon. Svo fór hann til Basel í Sviss og þaðan til Chelsea.
Athugasemdir
banner
banner
banner