Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 16. október 2021 18:31
Brynjar Ingi Erluson
England: Mendy varði eins og berserkur í sigri á Brentford
Edouard Mendy var frábær gegn Brentford
Edouard Mendy var frábær gegn Brentford
Mynd: Getty Images
Ben Chilwell fagnar marki sínu
Ben Chilwell fagnar marki sínu
Mynd: Getty Images
Brentford 0 - 1 Chelsea
0-1 Ben Chilwell ('45 )

Chelsea lagði Brentford að velli, 1-0, í lokaleik ensku úrvalsdeildarinnar í dag en enski landsliðsmaðurinn Ben Chilwell gerði fallegt mark undir lok fyrri hálfleiks. Edouard Mendy varði vel undir lokin.

Bryan Mbeumo átti besta færi Brentford í fyrri hálfleik er hann skaut boltanum í stöng eftir fyrirgjöf Sergi Canos. Stuttu síðar fékk Timo Werner dauðafæri til að koma Chelsea yfir en hann skaut boltanum yfir. Voðalega Werner-legt.

Það virtist allt stefna í markalausan fyrri hálfleik en Chilwell hélt þó ekki. Boltinn datt fyrir hann í teignum og tók hann fast skot með ristinni og í netið. Laglegt mark.

Mbeumo fékk annað færi til að skora fyrir Brentford á 75. mínútu en aftur fór skot hans í stöng. Ivan Toney var tekinn niður í teignum stuttu síðar og biðu leikmenn Brentford örvæntingafullur eftir niðurstöðu VAR. Ekkert víti þar sem hann var rangstæður í aðdragandanum.

Brentford pressaði á Chelsea síðustu mínúturnar og voru grátlega nálægt því að jafna. Ivan Toney átti fyrirgjöf á Samon Ghoddos en Edouard Mendy varði og svo bjargaði Trevor Chalobah á línu eftir skot frá Christian Norgaard.

Mendy varði aftur þremur mínútum síðar eftir skot frá Pontus Jansson. Brentford hélt áfram að pressa og var Norgaard nálægt því að skora eitt af mörkum ársins er hann reyndi bakfallsspyrnu en aftur varði Mendy.

Brentford náði ekki að leka inn marki og lokatölur 1-0 fyrir Chelsea sem er komið á toppinn með 19 stig. Baráttusigur þeirra bláu en heimamenn væntanlega svekktir að ná ekki að minnsta kosti stigi úr þessum leik.
Athugasemdir
banner
banner