Mikið hefur verið rætt um framtíð Christian Benteke, framherja Crystal Palace og belgíska landsliðsins, að undanförnu.
Sky Sports greindi frá því að Bordeaux hafi verið nálægt því að fá Benteke til sín að láni. Franska félagið hætti við því það tímdi ekki að greiða hálfa milljón punda fyrir lánssamninginn.
Roy Hodgson, stjóri Palace, segir ekkert vera til í þessu og útilokar að félagið muni lána Benteke í mánuðinum.
„Ég trúi ekki að ég hafi fengið þessa spurningu á alvöru fréttamannafundi. Ég trúi ekki að einhver haldi að við myndum lána út okkar besta sóknarmann, sem hefur verið meiddur stóran hluta tímabilsins, í frönsku deildina," sagði Hodgson.
„Ég vildi óska þess að ég vissi hvaðan þessar sögur kæmu. Það er enginn tilgangur með þessari spurningu, mér finnst fáránlegt að ég þurfi að sitja hérna og svara svona spurningum sem eru uppspuni frá rótum.
„Þetta er álíka fáránlegt og orðrómurinn sem sagði að Zaha væri á leið til Bayern á láni. Þetta er kannski 10% minna fáránlegt."
Athugasemdir