Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 17. maí 2021 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Varað við því að sækja um hjá Man Utd
Casey Stoney.
Casey Stoney.
Mynd: Getty Images
Manchester United hafnaði í fjórða sæti á þessu tímabili.
Manchester United hafnaði í fjórða sæti á þessu tímabili.
Mynd: Getty Images
Casey Stoney stýrði Manchester United í síðasta sinn - í bili að minnsta kosti - þegar liðið tapaði fyrir Leicester í gær.

Hin 38 ára gamla Stoney var fyrsti þjálfari kvennaliðs Man Utd eftir að liðið var stofnað. Hún tók við 2018 og hefur gert virkilega flotta hluti á skömmum tíma.

Hún kom liðinu upp í ensku úrvalsdeildina í fyrstu tilraun og á þessu tímabili tókst Man Utd að blanda sér í toppbaráttuna. United endaði í fjórða sæti og rétt missti af Meistaradeildarsæti.

Daily Mail fjallar um ástæðurnar fyrir því af hverju Stoney er að hætta. Umsækjendur þurfi að hugsa sig vel og vandlega um áður en sótt er um starfið.

Stoney er sögð ósátt við það hvernig staðið var að liðinu og hvernig aðstaðan var í kringum það. Liðið færði sig á Carrington æfingasvæðið á síðasta ári þar sem karlaliðið æfir. Aðstaðan fyrir kvennaliðið er hins vegar ekki sú sama. Þær voru fyrst ekki með aðstöðu til að fara í sturtu og þurfa að ganga í tíu mínútur frá þar sem þær æfa til að komast á næsta klósett. Kórónuveirufaraldurinn hefur ekki hjálpað þar sem leikmenn karlaliðsins þurfa núna marga klefa undir sig.

Talið er að leikmenn kvennaliðsins séu vonsviknir með það hvernig félagið hefur tekið á móti þeim á Carrington. Sagan er önnur hinum megin í borginni þar sem aðstaðan fyrir kvennalið Manchester City er frábær. Pep Guardiola horfir reglulega á æfingar hjá kvennaliði Manchester City og hvetur til samheldni.

Samkvæmt The Athletic þá var Stoney tilbúin að segja starfi sínu lausu fyrir tveimur mánuðum þar sem hún var ósátt við það að fá ekki pening til að styrkja liðið.

Stoney er fyrrum landsliðsfyrirliði Englands en talið er að hún sé að fara til Bandaríkjanna þar sem hún mun taka við nýstofnuðu kvennaliði San Diego sem mun koma inn í bandarísku deildina á næsta ári. Það er mikill missir hjá Manchester United af henni.


Athugasemdir
banner
banner