Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fim 17. nóvember 2022 22:24
Ívan Guðjón Baldursson
Ronaldo í seinni hlutanum: Ten Hag ögraði mér
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Seinni hluti umdeilds viðtals Piers Morgan við Cristiano Ronaldo hefur verið birtur í enskum fjölmiðlum og fer Ronaldo áfram víðan völl.


Morgan spurði meðal annars hvort Ronaldo yrði áfram leikmaður Manchester United út tímabilið.

„Það er erfitt að segja til um það núna því ég er bara að einbeita mér að HM. Þegar ég kom til Man Utd vildi ég bara hjálpa liðinu að bæta sig og berjast við bestu liðin. En það er erfitt þegar þeir kippa fótunum undan þér og halda þér frá því að skína og hlusta ekki einu sinni á ráðin sem þú hefur að gefa," svaraði Ronaldo.

„Ég tel mig geta ráðlagt félaginu um ýmislegt því ég hef unnið mikið af titlum á ferlinum sem partur af liðsheild. Ég tel mig geta hjálpað mikið en það er erfitt þegar aðstæður eru ekki nógu góðar."

Ronaldo sneri sér næst að Erik ten Hag, sem var ráðinn sem knattspyrnustjóri Manchester United í byrjun sumars. Ronaldo er ekki sáttur með starfshætti Ten Hag, sakar hann um að ljúga í fjölmiðlum og telur hann hafa ögrað sér viljandi. Hann segir að það sé ástæðan fyrir því að hann neitaði að koma inn af bekknum og gekk svo af velli fyrir lokaflautið í 2-0 sigri Man Utd gegn Tottenham í síðasta mánuði.

„Ég skil að maður vilji reyna að sýna sig í nýju starfi. Manchester var búið að vera svo lélegt síðustu fimm ár að það þurfti að hreinsa til. En vandamálið er hvernig félagið nálgast hlutina og leyfir fjölmiðlum að gera smáar sögur stórar. Ég skil hvernig þetta var í byrjun því ég sleppti undirbúningstímabilinu og gat þá ekki spilað strax en svo hélt þetta áfram. Aðrir hlutir gerast sem fólk veit ekki af og ég ætla ekki að fela það að samband mitt við stjórann er ekki gott. Ég er heiðarlegur.

„Hann virðir mig ekki á þann hátt sem ég á skilið, en þannig er það bara. Það er líklega ástæðan fyrir því að ég yfirgaf svæðið í leiknum gegn Tottenham.

„Ég viðurkenni að ég sé eftir þessu. Það er erfitt að lýsa þessu 100 prósent en segjum bara að ég sjái eftir þessu. Á sama tíma leið mér eins og stjórinn hefði ögrað mér. Hann setti mig ekki inn af bekknum gegn Manchester City af virðingu fyrir ferlinum mínum og ætlaði svo að setja mig inná til að spila síðustu þrjár mínúturnar gegn Tottenham. Fyrirgefið, ég er ekki sú tegund af leikmanni. Ég veit hvað ég get gefið liðinu.

„Það er enginn að fara að segja mér að toppleikmenn, leikmenn sem vilja vinna allt, lykilmenn í sínum liðum, sætti sig við að spila þrjár mínútur. Það er óásættanlegt. Þeir segja við andlitið á mér að þeir beri virðingu fyrir mér en svo gera þeir þetta. Ég held að hann hafi gert þetta viljandi. Að mínu mati var þetta vanvirðing og þess vegna tók ég ákvörðun sem ég sé eftir.

„Ég bað liðsfélagana afsökunar og gerði það líka opinberlega. Stjórinn ber ekki virðingu fyrir mér. Hann segir í fjölmiðlum að hann vilji koma til móts við mig og að honum líki vel við mig bla, bla, bla. Það er bara fyrir fjölmiðla. 100 prósent. Ef þú berð ekki virðingu fyrir mér þá mun ég aldrei bera virðingu fyrir þér."

Sjá einnig:
Ronaldo leit aldrei á Rangnick sem stjórann: Fáránleg ráðning
Eins og tíminn hafi stöðvast: Engin þróun hjá Man Utd
Ronaldo lítur upp til Dalot, Martinez og Casemiro


Athugasemdir
banner
banner
banner