Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   fim 17. nóvember 2022 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Ronaldo lítur upp til Dalot, Martinez og Casemiro
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Cristiano Ronaldo fór víðan völl í ítarlegu viðtali við Piers Morgan á dögunum og var fyrri hluti viðtalsins birtur í enskum fjölmiðlum í gærkvöldi.


Ronaldo ræddi meðal annars um metnaðarleysi ungra leikmanna í viðtalinu sem leiddi Morgan til þess að spyrja hann út í hvaða leikmenn nútímafótboltans hann bæri mesta virðingu til.

„Ég get bara dæmt útfrá því sem ég sé frá mínum eigin augum. Hjá Manchester United get ég nefnt (Diogo) Dalot. Hann er ungur leikmaður, eldklár og mikill fagmaður, ég hef engar efasemdir um að hann muni eiga langan og farsælan feril," sagði Ronaldo.

„Það eru nokkrir aðrir ungir leikmenn með gott hugarfar en það er erfitt að nefna einhvern. Ég gæti nefnt Martinez, þar sem Casemiro er kominn yfir þrítugt. Ef ég ætti að velja einn þá væri það Dalot."

Fyrr í viðtalinu sagðist Ronaldo hafa lært margt af fyrrum liðsfélögum sínum hjá Man Utd á borð við Rio Ferdinand og Roy Keane. Ronaldo var spurður út í þessa tvo fyrrum leikmenn sem starfa sem fótboltasérfræðingar í dag. Ferdinand og Keane hafa komið Ronaldo til varnar í rifrildi hans við félagið.

„Þessi stuðningur er mikils virði fyrir mig því ég deildi búningsklefa með þeim. Þeir eru mikilvægur partur af minni vegferð. Roy Keane er besti fyrirliði sem ég hef nokkurn tímann haft og Rio Ferdinand hjálpaði mér ótrúlega mikið, hann var nágranni minn hérna. Þeir eru virkilega góðir náungar og ekki bara því þeir tala vel um mig heldur því þeir vita hvernig leikmenn eru, hugsa og hegða sér."

Aðrir fyrrum liðsfélagar og núverandi fótboltasérfræðingar hafa gagnrýnt Ronaldo í fjölmiðlum. Gary Neville hefur haft sem hæst og þá hefur Wayne Rooney, sem þjálfar DC United í Bandaríkjunum, einnig tjáð sig eftir ummæli Ronaldo sem tengdust honum.

„Fólk getur verið með sínar eigin skoðanir en það veit ekki hvað er í gangi á æfingasvæðinu. Það er auðvelt að gagnrýna mig án þess að þekkja mína hlið, þeir eru bara með hálfa söguna. Þessir menn eru ekki vinir mínir, þeir eru samstarfsfélagar. Við spiluðum fótbolta saman en við erum ekki að snæða kvöldverð saman. Þeir eru partur af mínu ferðalagi en halda stöðugt áfram að gagnrýna mig með einhverju neikvæðu í hverri viku. Ég ætla að halda minni vegferð áfram en ég vil frekar vera í kringum fólk sem líkar vel við mig."

Sjá einnig:
Ronaldo: Ungu leikmennirnir hlusta ekki á mig
Ronaldo var næstum farinn til Man City í fyrrasumar


Athugasemdir
banner
banner