Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 18. maí 2022 22:09
Brynjar Ingi Erluson
Evrópudeildin: Eintracht Frankfurt meistari eftir vítaspyrnukeppni
Eintracht Frankfurt er Evrópudeildarmeistari
Eintracht Frankfurt er Evrópudeildarmeistari
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Það var biluð stemning í Seville
Það var biluð stemning í Seville
Mynd: EPA
Eintracht Frankfurt 1 - 1 Rangers (5-4 í vítakeppninni)
0-1 Joe Aribo ('57 )
1-1 Rafael Borre ('69 )

Þýska félagið Eintracht Frankfurt er Evrópudeildarmeistari eftir að hafa unnið Rangers í úrslitum í Seville-borg í kvöld. Frankfurt vann eftir vítaspyrnukeppni en liðið skoraði úr öllum spyrnum sínum og vinnur keppnina í fyrsta sinn í 42 ár.

Leikurinn byrjaði af alvöru hörku en John Lundstram, leikmaður Rangers, var stálheppinn að sleppa við rautt spjald strax á 5. mínútu er hann fór með sólann hátt upp og hæfði höfuð Sebastian Rode.

Lundstram slapp við spjald og áfram hélt leikurinn. Frankfurt var betri aðilinn svona framan af í fyrri hálfleik og átt besta færið en Allan McGregor varði vel frá Ansgar Knauff. Rangers fékk nokkur ágætis hálffæri en voru ekki alveg að ná sama takti og Frankfurt.

Skoska liðið kom með meiri áræðni og kraft inn í síðari hálfleikinn og átti nokkur ágætis færi áður en Joe Aribo kom liðinu yfir á 57. mínútu en til þess þurfti mistök í vörn Frankfurt.

Djibril Sow skallaði boltann til baka á Tuta en hann rann til og komst Aribo í boltann og skoraði framhjá Kevin Trapp í markinu.

Frankfurt svaraði. Liðið óð í færum næstu mínútur og kom jöfnunarmarkið á 69. mínútu. Rafael Borre skoraði þá eftir laglega fyrirgjöf frá Filip Kostic.

Ekki var meira skorað eftir venjulegan leiktíma og þurfti að fara með leikinn í framlengingu. Ryan Kent gat tryggt Rangers titilinn undir lok síðari hálfleiks framlenginarinnar en Trapp varði meistaralega með löppunum. Þetta klúður átti eftir að reynast dýrkeypt fyrir Rangers sem tapaði í vítaspyrnukeppninni, 5-4.

Aaron Ramsey, sem er á láni hjá Rangers frá Juventus, var sá eini sem skoraði ekki í vítaspyrnukeppninni en allir leikmenn Frankfurt skoruðu.

Frankfurt vinnur því Evrópudeildina í ár og tryggir sér sæti í Meistaradeild Evrópu fyrir næstu leiktíð. Þetta er í annað sinn sem Frankfurt vinnur þessa keppni en síðast gerði liðið það árið 1980.

Athugasemdir
banner
banner