Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 18. maí 2023 11:28
Garðar Örn Hinriksson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Þetta er bara helvítis fótbolti!
Garðar Örn Hinriksson
Garðar Örn Hinriksson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Aftureldingar og Þórs.
Úr leik Aftureldingar og Þórs.
Mynd: Raggi Óla
Úr leik Breiðabliks og Fram.
Úr leik Breiðabliks og Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Hverju ert þú að reyna að breyta þegar þú ákveður að hreyta ljótum orðum í dómarann úr stúkunni? Hverju ætlar þú að breyta þegar þú ákveður að hlaupa inn á völlinn og ætlar að rjúka í dómarann og láta hann finna fyrir því? Hverju ætlar þú að breyta þegar þú hótar dómara lífláti? Eru þetta réttu aðferðirnar til að fá betri dómgæslu?


Það er allt í lagi að gagnrýna og segja sína skoðun. Það hafa allir rétt á því að hafa skoðun, hver sem hún er. Ég hef til dæmis verið duglegur við það síðustu ár að segja hvað mér finnst um íslenska dómara. En hef ég látið ljót orð falla þegar ég hef gagnrýnt þá? Nei, aldrei! Menn taka þetta misjafnlega nærri sér sem ég segi og hef ég misst vini úr röðum dómara vegna skoðanna minna. Það finnst mér miður en svoleiðis er það bara stundum þannig. Það þola ekki alltaf allir sannleikann.

Síðastliðin ár hefur dómgæsla á Íslandi ekki verið neitt sérstök. Samt betri en á Englandi. Áður fyrr var hægt að tala um stórdómara á Íslandi og voru þeir margir. Það er of langt mál að telja þá alla upp hér en til að minnast á nokkra má nefna Magga Pé heitinn, Gylfa Þór Orrason og Kristin Jakobsson. Þetta voru stórdómarar sem klikkuðu sjaldan og nöfn þeirra munu lifa lengi í heimi knattspyrnunnar því þeir voru góðir dómarar. Í dag er varla hægt að tala um neinn sérstakan stórdómara og verða nöfn þeirra fljótlega gleymd þegar flautan fer á hilluna, því miður.

Annað hvort fæðist þú með þessa hæfileika til að dæma eða ekki. Sumir hafa þetta algjörlega í sér á meðan aðrir eru á rangri hillu. Það er alveg sama hversu mikið þú dæmir og æfir þig í dómgæslu, ef þú hefur þetta ekki í þér verður þú aldrei góður dómari. Þú nærð kannski þolprófinu og þá er það upptalið.

Að hóta knattspyrnudómara lífláti vegna þess að þú ert ekki sáttur með dómgæsluna er það sorglegasta sem ég veit um. Reyndar hefði ég haldið að ef þú hótar einhverjum lífláti sé það mál á leiðinni fyrir annarskonar dómara. En kannski er það bara þannig allsstaðar annarsstaðar en á Íslandi. Hvort sem menn eru góðir eða ekki nógu góðir knattspyrnudómarar eru menn að reyna að gera sitt besta. Þeir eru virkilega að því. Það leikur sér enginn að því að dæma illa. Ef þessir menn sem eru að láta ljót orð falla í garð dómara eða hóta þeim lífláti eru svona fróðir um dómgæslu, af hverju í fjandanum eru þeir þá ekki að dæma fyrst þeir eru með leikinn og knattspyrnulögin á hreinu?

Augnablik og Reynir S mættust á dögunum og þar var maður nokkur sem gekk inn á völlinn og hótaði dómara lífláti. Líklegast var honum bara vísað af svæðinu í staðinn fyrir að gera þetta að lögreglumáli, sem það hefði átt að vera. Sá ætti að vera stoltur af sjálfum sér núna. Frábær fyrirmynd, eða þannig, fyrir börnin og kannski barnabörnin. Ég sjálfur fékk aldrei líflátshótanir að mig minnir en hótanir fékk ég samt þegar ég var dómari. Það komu menn hlaupandi inn á völlinn og ætluðu að lumbra á mér en voru stöðvaðir af öryggisgæslunni. Eitt sinn réðst meira að segja einstaklingur úr öryggisgæslunni að mér með ljótum orðum eftir leik. Það hefur verið hrækt á mig eftir leik af stuðningsmanni. Mér hefur verið hrint af stuðningsmanni eftir leik. Einnig var mér hótað öllu illu á skemmtistað eitt sinn. Meira að segja var elsta barnið mitt lagt í einelti um stund vegna þess að ég var pabbi þess. Ég er búinn að upplifa þetta meira og minna allt saman og það var engin skemmtun.

Annað atvik sem er búið að vera mikið í umræðunni er úr leik Aftureldingar og Þórs A þar sem dómari tók til baka vítaspyrnu, sem hann hefur rétt á, við lítinn fögnuð. Dómari leiksins er búinn að viðurkenna að hann hefði ekki farið rétt að þessu en hann mun þó hafa verið í sambandi við aðstoðardómara sína vegna atviksins. Að menn haldi það virkilega að heilt lið geti fengið dómara bara sísvona til að breyta dómi á þessum stigum knattspyrnunnar er fráleitt. Sjálfur snéri ég einu sinni vítaspyrnudómi við og það gerði ég bara einu sinni á ferlinum, og það á Norður Írlandi þar sem menn eru mun heitari í skapinu en hér. Oft verða læti þegar maður dæmir vítaspyrnu og reyna menn að hafa áhrif á dómara sem skilar engu í 99% tilfella. Það varð bókstaflega allt vitlaust þegar ég benti á punktinn á Norður Írlandi og hélt ég um stund að allir væru komnir með hundaæði. Menn froðufelldu af reiði. Viðbrögðin sem ég fékk voru þó á þann veginn að þau voru allt öðruvísi en ég hafði kynnst áður. Þau voru svo ofsafengin og fengu mig til að hugsa hvort ég hefði tekið rétta ákvörðun. Ég ákvað því að ræða við aðstoðardómara þeim megin á vellinum því hann hafði flaggað vítaspyrnu, að ég hélt. „Ég var bara að flagga markspyrnu“, sagði hann þegar ég ræddi við hann. Ég misskildi flaggið og dæmdi víti. Þetta útskýrði ég fyrir leikmönnum og tók vítið til baka. Aðkomumenn voru ekki sáttir við þá niðurstöðu og enduðu í tveimur gulum spjöldum. Auðvitað vildu þeir fá vítið sem ég hafði dæmt þeim en þeir vissu það samt alveg að þetta var aldrei víti.

Eftir leik Breiðabliks og Fram fær dómari hótanir og það fá einhverjum misvitrum krökkum. Þeir geta líka verið til alls vísir rétt eins og þeir fullorðnu og líklega tilbúnir með símann á lofti þegar þeim tekst að finna og síðan að ráðast á dómarann og jafnvel murrka úr honum lífið. Ég heyrði það frá fyrrverandi dómara sem heyrði það frá öðrum dómara sem dæmir í dag að KSÍ hafi boðað foreldra þessara krakka á fund sinn í höfuðstöðvunum í Laugardal til að biðja dómara leiksins afsökunar. Síðan voru þeir leystir út með gjöfum sem voru miðar á næsta landsleik Íslands. „Nei, hvur andskotinn“, sagði ég við sjálfan mig þegar ég heyrði þetta. Ég vona svo heitt og innilega að þarna hafi ég rangt fyrir mér.

Það hefur ekki bara áhrif á dómarann þegar hann lendir í þessum aðstæðum. Þetta hefur líka áhrif á fólkið í kringum hann, börnin hans og maka. Dómarinn er kannski með breytt bak en það hafa börnin hans og maki ekki. Ef pabbi minn hefði lent í þessu hefði ég verið niðurbrotinn vegna þessa og bannað honum að dæma fleiri leiki.

Samfélagsmiðlar og fjölmiðlar eru versta eitrið í þessu. Dómari gerir mistök í leik og nokkrum sekúndum síðar er hann kominn í fyrirsagnir á internetinu. Fullt nafn og mynd fylgir með og fólk tryllist á eineltisvefsíðunni Twitter. Líklega mun heimilisfang fylgja með í framtíðinni. Ef barnið mitt myndi vilja verða knattspyrnudómari í dag myndi ég reyna allt hvað ég gæti til að koma í veg fyrir það. Ég er samt þannig foreldri að ég styð börnin mín í öllu sem þau vilja taka sér fyrir hendur, hvort sem ég fýla íþróttina eður ei. Ekki samt knattspyrnudómarastarfið.

Þrátt fyrir þessi tvö alvarlegu atvik sem ég minnist á heyrist ekkert í formanni knattspyrnusambandsins né formanni dómaranefndar. Er þetta fólk hæft í að gegna þessum störfum? Ekki ef það drullar sér ekki til að hysja upp um sig buxurnar og tjá sig strax um þessi mál.

Þetta bara helvítis fótbolti! Slakið aðeins á!

*Yfirmaður dómaramála er búinn að tjá sig eftir að pistillinn var ritaður.


Athugasemdir
banner
banner
banner