fim 18. júlí 2019 20:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rúnar Páll: Bað æðri máttarvöld um að hjálpa okkur
Rúnar Páll, þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Páll, þjálfari Stjörnunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan komst áfram í næstu umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.
Stjarnan komst áfram í næstu umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er algjörlega ólýsanlegt," sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, vægast sagt ánægður eftir sigur Stjörnunnar í einvígi sínu gegn Levadia Tallinn frá Eistlandi í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Sjá einnig:
Evrópudeildin: Ótrúleg dramatík - Stjarnan mætir Espanyol

Varnarmaðurinn Brynjar Gauti skoraði sigurmarkið í einvíginu á 123. mínútu. Leikurinn var framlengdur og komst Levadia yfir í framlengingunni og virtist vera á leiðinni áfram áður en Brynjar Gauti skoraði.

„Þetta er stórkostlegt afrek að koma svona til baka og skora þetta lokamark. Algjör snilld. Við gáfumst aldrei upp. Þeir eru drullugóðir Levadia og við áttum í helvítis basli með þá. Við sýndum seiglu. Það er geggjuð stemning í herbúðum Stjörnunnar þessa dagana," sagði Rúnar Páll.

„Við vorum búnir að leggja á þeim. Við fengum ágætis sóknir í lokin og fengum þetta horn. Maður bað æðri máttarvöld að hjálpa okkur, ég var orðinn stjarfur þarna. Þetta var alveg magnað. Maður hefur alltaf trú á sínu liði."

„Svona upplifir maður ekki oft á ævinni."

Tókum áhættur
Þetta einvígi var mikil skemmtun og réðst ekki fyrr en á lokasekúndunum eins og áður kemur fram. Rúnari fannst einvígið skemmtilegt.

„Þetta einvígi var skemmtilegt. Við erum búnir að vera úti frá því á mánudaginn og eiga góðar stundir í Tallinn. Við kláruðum þetta fallega í kvöld, en þetta Levadia-lið er drullusterkt og sýndi það í kvöld á heimavelli."

„Það var helvíti súrt að fá á sig þetta mark í blálokin á venjulegum leiktíma, en þetta einvígi var skemmtileg og það er gríðarlega sterkt að fara áfram."

„Við töluðum um það í hálfleik framlengingarinnar að við þyrftum bara eitt mark til að halda okkur inn í þessari keppni. Við færðum Brynjar Gauta hærra upp völlinn og vorum með þrjá til baka. Þeir fengu alveg gagnsóknir á okkur, en við náðum að redda því. Leikplanið heppnaðist þannig. Við tókum áhættur og þurftum að fá þetta mark."

Okkur finnst það ógeðslega gaman
Næsta verkefni hjá Stjörnunni í Evrópudeildinni eru leikir gegn spænska úrvalsdeildarfélaginu Espanyol.

Þetta er ekki fyrsta Evrópuævintýri Stjörnunnar. Það var eftirminnilegt 2014 þegar liðið var ekki langt frá því að komast í riðlakeppni Evrópudeildarinnar en féll á síðustu hindrun; Inter Milan frá Ítalíu.

„Okkur finnst það eiginlega ógeðslega gaman," segir Rúnar um Evrópuævintýri Stjörnunnar.

„Það er það sem klúbburinn hefur gert og það sem ég hef lagt áherslu á er að fara snemma og njóta þess að vera í þessari keppni. Það eru forréttindi að vera í Evrópukeppni. Við förum snemma og erum búnir að vera hérna frá því á mánudaginn, þétta raðirnar og njóta þess að vera í keppninni."

„Ég held að það geti skilað árangri að fara í umferð og annað slíkt með því að hugsa vel um liðið, þjálfarana og apparatið í kringum liðið. Stjórn félagsins á heiður skilið," sagði Rúnar Páll Sigmundsson við Fótbolta.net.



Athugasemdir
banner
banner
banner