Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 19. janúar 2020 22:55
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Reykjavíkurmótið: KR í undanúrslit - Fylkir vann í markaleik
Hjalti Sigurðsson, sem lék með Leikni síðasta sumar, fékk rautt spjald snemma leiks hjá KR.
Hjalti Sigurðsson, sem lék með Leikni síðasta sumar, fékk rautt spjald snemma leiks hjá KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fylkir vann Fjölni.
Fylkir vann Fjölni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það fóru fram tveir leikir í A-riðli Reykjavíkurmótsins í dag. Fylkir og KR báru sigurorðið í leikjunum tveimur.

Íslandsmeistarar KR lögðu Þrótt að velli, 2-0, þrátt fyrir að hafa verið manni færri frá 6. mínútu. Hjalti Sigurðsson, leikmaður KR, fékk að líta rautt spjald snemma leiks.

Ástbjörn Þórðarson kom KR yfir á 12. mínútu og tvöfaldaði Tobias Thomsen forystuna seint í leiknum.

Lokatölur 2-0 fyrir KR sem er á toppi riðilsins með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. KR er komið áfram í undanúrslit. Þróttarar eru á botni riðilsins með þrjú stig og markatöluna -8.

Fylkir vann sinn fyrsta leik í mótinu er liðið mætti Fjölni. Úr varð markaleikur sem byrjaði ekki vel fyrir Fylki þar sem Kristófer Óskar Óskarsson skoraði fyrstu tvö mörk leiksins fyrir Fjölni.

Valdimar Þór Ingimundarson og Þórður Gunnar Hafþórsson jöfnuðu fyrir Fylki, en Ingibergur Kort Sigurðsson kom Fjölni aftur yfir fyrir leikhlé.

Fylkir sýndi karakter í seinni hálfleiknum. Hákon Ingi Jónsson jafnaði aftur á 47. mínútu og kom Ásgeir Eyþórsson Fylkismönnum yfir á 65. mínútu. Orri Sveinn Stefánsson skoraði fimmta mark Fylkis á 79. mínútu.

Þar við sat og lokatölur 5-3 fyrir Fylki, sem er með þrjú stig eins og ÍR og Þróttur. Fjölnismenn hafa spilað alla fjóra leiki sína og eru með sex stig í öðru sæti.

Tvö lið fara upp úr riðlinum og í undanúrslit. Fjölnir er með mjög góða markatölu og er því í fínni stöðu upp á að komast áfram. Fjölnir er með sex stig og +8 í markatölu. Þar er það 7-0 sigur liðsins á Þrótti sem segir mikið.

Fylkir, ÍR og Þróttur eru öll með þrjú stig og eiga einn leik eftir. Fylkir er með 0 í markatölu, ÍR er með -4 og Þróttur eins og áður segir með -8. ÍR á eftir að spila við KR og Þróttur á eftir leik gegn Fylki.

Fylkir 5 - 3 Fjölnir
0-1 Kristófer Óskar Óskarsson ('17)
0-2 Kristófer Óskar Óskarsson ('26)
1-2 Valdimar Þór Ingimundarson ('35, víti)
2-2 Þórður Gunnar Hafþórsson ('40)
2-3 Ingibergur Kort Sigurðsson ('42)
3-3 Hákon Ingi Jónsson ('47)
4-3 Ásgeir Eyþórsson ('65)
5-3 Orri Sveinn Stefánsson ('79)

KR 2 - 0 Þróttur R.
1-0 Ástbjörn Þórðarson ('12)
2-0 Tobias Thomsen ('90)
Rautt spjald: Hjalti Sigurðsson, KR ('6)
Athugasemdir
banner