
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, miðjumaður Vals, lét áhugaverð ummæli falla á meðan Evrópumótið stóð yfir í sumar.
Ásgerður, eða Adda eins og hún er alltaf kölluð, var sérfræðingur RÚV á meðan mótinu stóð. Hún telur að íslenska liðið sé eftir á í taktík.
„Það sem er jákvætt er að við höfum gefið í líkamlega en við höfum aðeins gefið eftir í taktískt legum skilningi. Á þessu móti hefði ég viljað sjá okkur vera nær Ítölum og Belgum í því hvernig við leggjum upp leiki, eitthvað sem við getum klárlega bætt," sagði Adda.
Það er spurning hvort það sé hægt að túlka þetta sem skot á þjálfarateymið, það hljómar að einhverju leyti þannig og sumir vilja túlka það sem svo.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, var spurður út í þessi ummæli í viðtali við Fótbolta.net í dag.
„Ég veit reyndar ekki um hvað hún er að tala eða hvað hún er að meina. Hún verður að svara því betur," sagði Steini sem vill fá betri útskýringar frá Öddu.
Adda, sem er 35 ára gömul, á að baki tíu A-landsleiki með Íslandi.
Athugasemdir