Aleksander Ceferin, forseti evrópska fótboltasambandsins, UEFA, er ekki viss um að hægt sé að kalla rembingskoss Luis Rubiales, fyrrum forseta spænska fótboltasambandsins, glæpsamlegan.
Ceferin ræddi við sjónvarpsstöðina N1 og talaði þar hegðun Rubiales á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi.
Jenna Hermoso, leikmaður spænska kvennalandsliðsins, fékk óumbeðinn rembingskoss frá Luis Rubiales beint á munninn eftir að Spánn tryggði sér heimsmeistaratitil kvenna. Rubiales var forseti sambandsins en hefur nú sagt af sér.
Margir leikmenn spænska landsliðsins eru í verkfalli og neita að mæta í verkefnið í þessum mánuði, en þær telja að afsögn sé ekki nóg.
Hermoso kærði Rubiales fyrir kynferðislega áreitni og hefur nú fengið nálgunarbann á fyrrum forseta fótboltasambandsins, en hann gæti átt yfir höfði sér allt að fjögurra ára fangelsi ef hann verður fundinn sekur.
„Það sem Rubiales gerði var óviðeigandi og kærulaust, en ég er að lesa að það sé glæpur. Ég er sakamálalögfræðingur og frá mínu sjónarhorni virkar þetta órökrétt. Þið blaðamenn tókuð söguna á þetta stig,“ sagði Ceferin við N1.
Athugasemdir