De Bruyne og Grealish til Napoli? - Rodrygo og Frimpong til Liverpool - Al Hilal vill tvo frá Liverpool - Tveir orðaðir frá Newcastle
   þri 19. september 2023 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Newcastle strax búið að brjóta UEFA reglur
Mynd: EPA

Newcastle United er að spila í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fyrsta sinn síðan tímabilið 2002-03 og er Eddie Howe að þreyta frumraun sína sem þjálfari í keppninni.


Newcastle tók ákvörðun sem vakti mikla athygli þegar félagið ákvað að æfa í Newcastle fyrir fyrsta riðlaleikinn sem er á útivelli gegn AC Milan.

Vanalega æfa félög á völlum andstæðinga sinna degi fyrir leik í Evrópukeppnum en Howe hefur eflaust viljað æfa í Newcastle til að forðast að njósnari frá andstæðingunum fengi tækifæri til að fylgjast með.

Þetta varð til þess að Newcastle flaug seint til Mílanó, en flugi liðsins var einnig seinkað um rúmlega tvo klukkutíma vegna óveðurs á Ítalíu.

Með því tókst Newcastle að brjóta reglur UEFA, evrópska knattspyrnusambandsins, án þess að hafa sparkað í bolta í Evrópukeppni í rúman áratug.

Samkvæmt reglum UEFA verða félög að halda fréttamannafundi sína á milli 12:00 og 20:00 á staðartíma, en Newcastle lenti alltof seint í Mílanó.

Það verða líklegast engar eða einungis minniháttar afleiðingar en það ríkir gríðarlega mikil eftirvænting fyrir leikinn. Sandro Tonali, fyrrum lykilmaður á miðju AC Milan, er kominn til Newcastle og hefur eflaust deilt allri sinni vitneskju um sitt fyrrum félag með þjálfarateyminu. 

Fréttamannafundur Newcastle átti upprunalega að fara fram klukkan 19:00 en vegna seinkunar á flugi hófst hann ekki fyrr en um klukkan 21:00. 


Athugasemdir
banner
banner